Frá vinstri: Eiríkur Páll Jörundsson, Kristinn Þór Jakobsson, Kjartan Már Kjartansson, Pétur Már Ólafsson og Þórdís Ósk Helgadóttir
Kjartan Már bæjarstjóri og Pétur Már Ólafsson frá bókaútgáfunni Bjarti & Veröld og Fagurskinnu undirrituðu í dag útgáfusamning fyrir útgáfu fjórðu bókar Sögu Keflavíkur frá 1949 til 1994.
Alls hafa komið út þrjár bækur um sögu Keflavíkur, fyrsta bókin spannar tímabilið frá 1766 til 1890, önnur bókin fjallar um árin 1890-1920 og í þriðju bókinni eru árunum 1920-1949 gerð góð skil. Höfundur þessara bóka er Bjarni Guðmarsson. Fjórða bókin um sögu Keflavíkur spannar tímabilið 1949-1994 eða allt frá því að Keflavík fékk kaupstaðarréttindi og þar til bæjarfélögin Keflavík, Njarðvík og Hafnir sameinuðust undir merkjum Reykjanesbæjar. Rithöfundur fjórðu bókar Sögu Keflavíkur er Árni Daníel Júlíusson.
Bjartur & veröld tekur að sér hönnun og umbrot bókarinnar og ráðleggur við val á ljósmyndum, prófarkalestur og yfirumsjón með öllum verkþáttum. Áætlað er að bókin verði um 500 síður í sama broti og fyrri bækur í Sögu Keflavíkur. Bókin sem verður prentuð í 1.500 eintökum fer í prentun í febrúar og er áætlað að hún komi út í apríl á næsta ári.
Samfara útgáfu bókarinnar verður opnaður söguvefur þar sem efni bókarinnar og efni sem ekki ratar á blaðsíður bókarinnar verður komið fyrir ásamt fleiri ljós- og kvikmyndum og öðru efni sem kann að verða ritað um sögu Keflavíkur í framtíðinni. Í framhaldinu er áætlað að sögu Reykjanesbæjar verði haldið til haga á Söguvef Reykjanesbæjar.
Sögunefnd Keflavíkur 1949-1994 er skipuð þeim Erlu Guðmundsdóttur, Ragnhildi Árnadóttur, Árna Jóhannssyni, Stefáni Jónssyni og Kristni Þór Jakobssyni sem er formaður.