Húseignin að Vatnsnesvegi 8
Kjartan Már Kjartansson fyrir hönd Reykjanesbær og Steinþór Jónsson fyrir hönd KEF ehf. hafa undirritað samstarfssamning um endurbætur og nýtingu á Vatnsnesvegi 8 sem sveitarfélagið fékk í dánargjöf frá Bjarnfríði Sigurðardóttur árið 1974.
Í erindinu kemur fram að tilboðsgjafi sé reiðubúinn til viðræðna við sveitarfélagið á þeim forsendum sem lýst er í auglýsingunni. Vísað var til þess að væntingar þeirra lúta að því að hægt verði að eiga með sér samstarf um lagfæringar á útliti og umhverfi hússins. Fram kom vilji til þess að tengja atvinnustarfsemi í nágrenninu við Vatnsneshúsið með hellulögn svo að þjónusta og endurbætur fari saman. Var óskað eftir viðræðum um það hver nýting húsnæðisins gæti verið fyrir Steinþór, atvinnufyrirtæki í nágrenninu og samfélagið allt. Tillaga Steinþórs miðaði við að húsið yrði notað sem móttökusvíta, fundarherbergi eða sýningarsalur. Jafnvel kaffihús með léttum veitingum og gæti verið ,,Höfði“ Reykjanesbæjar þar sem stærri fundir og móttökur gætu farið fram. Nýting sem þessi myndi því samhliða geta verið lítið byggðasafn, sögusýning hússins sem og bæjarfélagsins og annarra þátta sem myndu tengjast í tíma og rúmi.
Í erindinu kemur fram að það sé vilji til að halda sögu hússins í heiðri og í þeim anda sem eigendur hússins höfðu í huga þegar þeir afhentu húsið til Keflavíkurbæjar. Öllum beri saman um að Vatnsnes hefur verið eitt glæsilegasta hús bæjarins og staðsetning þess sé einstök. Að mati Steinþórs er mikilvægt að halda stílnum og þeim arkitektúr að mestu leyti eins og það var upprunalega hannað og byggt.
Loks sagði í erindi Steinþórs:
,,Fjölskyldan mín hefur verið með starfsemi á móti þessu þekkta húsi nú þegar í tæp 50 ár, eða frá 13 febrúar 1972, og höfum því sterkar taugar til hússins og umhverfisins í heild. Því má segja að endurbætur á Vatnsnesi er aðeins lítill hluti af þeirri framtíðarsýn sem við höfum fyrir svæðið í heild. Ég hef þegar viðrað hugmyndir að nýta Vatnsnesið fyrir framtíðarferðaþjónustu, þar sem húsið væri miðpunktur umhverfisins en í kring færi fram starfsemi sem myndi draga til sín innlenda og erlenda ferðamenn sem og bæjarbúa. Við sjáum fyrir okkur tengingu við sjávarleiðina og frekari útsýnissvæði frá Vatnsnesinu auk þess sem við teljum að Básvegurinn sjálfur eigi að vera hugsaður sem lifandi ferðamannaþjónusta og götulíf eins og best þekkist í öðrum bæjarfélögum á Íslandi. Því tengdu hefur undirritaður nú þegar verið í sambandi við aðila um að skoða möguleika á glæsilegri aðstöðu fyrir sjóböð og heitar laugar við básinn með einstöku útsýni yfir Faxaflóann og Bergið, í mikilli nálægð við flest stærstu gistihús og þjónustu bæjarins. Teikningar og hugmyndir þessu tengdu myndu koma á okkar umræðufundi.“
Með samstarfssamningnum geta loksins nauðsynlegar endurbætur farið fram á Vatnsneshúsinu og húsið tekið í notkun í kjölfarið. Samkvæmt kaupsamningi sem undirritaður var samhliða samstarfssamningnum verður KEF ehf., einkahlutafélag Steinþórs Jónssonar, eigandi að 49% hluta fasteignarinnar (mannvirki án lóðarréttinda).
Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, lýsti við undirritunina yfir ánægju sinni að þetta mál sem hefur í mjög langan tíma verið í óvissu sé nú komið í góðan farveg og Reykjanesbær bindi miklar vonir við að húsinu og gefendum þess verði nú sýnd sú virðing sem það/þau eiga skilið.
Vatnsnes - sagan
Um aldamótin 1900 bjuggu á Stóra-Vatnsnesi hjónin Guðni Jónsson (1852-1922) og Helga Vigfúsdóttir (1845-1929). Þau kynntust þegar þau voru bæði vinnufólk í Hrúðunesi í Leiru og giftust árið 1878. Þau fluttu á Stóra-Vatnsnes árið 1891 og bjuggu þar til dauðadags. Þau voru fædd í kringum miðja 19. öld, hún í Skagafirði en hann austur í Mýrdal. Saga þeirra er dæmigerð saga marga hér á landi sem freistuðu þess að lifa af því sem hafið gaf. Þar gat brugðið til beggja vona. Á þessum fyrstu búskaparárum hafa þau hjón treyst á sjávarafla sér til viðurværis og skipti þar miklu hversu fengsæll og farsæll Guðni var við fiskveiðarnar.
Guðni og Helga áttu aðeins eitt barn sem upp komst, Sigfús Jóhann, (1884-1946) en yfirleitt notaði hann bara seinna nafn sitt. Jóhann erfði dugnað og útsjónasemi foreldra sinna með ríkum hætti. Hann skaut mörgum stoðum undir heimili sitt á Vatnsnesi, stóð m.a. í jarðarbótum, setti á stofn og rak timburverslun og vélbátaútgerð. En Guðni, faðir hans, tók þátt í að kaupa fyrsta mótorbátinn til Keflavíkur í upphafi aldarinnar. Með tilkomu mótor-bátanna varð bylting í íslenskum sjávarútvegi sem kalla má í raun iðnbyltingu Íslands. Þéttbýlið dafnaði við strandlengjuna og lagði grunn að Íslandi nútímans. Keflavíkurhöfn er í landi Vatnsness og er hún fyrsta hafskipahöfn Suðurnesja. Þegar Óskar Halldórsson leitaði samþykkis fyrir þessa framkvæmd hjá bóndanum á Vatnsnesi þá kom hann ekki að tómum kofanum. Jóhann ásamt fleiri mönnum hafði byggt upp bryggju og aðstöðu til löndunar í Básnum sem er fyrir neðan íbúðarhúsið og Básvegur er kenndur við. Í básnum upp af bryggjunni voru byggðir beitningaskúrar og fiskverkunarhús.
Framsýni, dugnaður og vilji til verka einkenndi alla umsýslu þeirra feðga. En Guðni vissi að ekki var nóg að hafa ríkan vilja til verka það verður líka að vera fjárhagslega mögulegt. Þar var stofnun Sparisjóðs Keflavíkur afar mikilvæg en Guðni var einn af stofnendum hans.
Fólkið sem bjó í húsinu
Jóhann (1884-1946) giftist árið 1914 Bjarnfríði Sigurðardóttur (1889-1974), heimili þeirra var alla tíð á Vatnsnesi. Foreldrar Jóhanns bjuggu með þeim allt þar til þau létust á árunum 1922 og 1929. Skömmu eftir að þau létust var þetta glæsilega íbúðarhús byggt á árunum 1934-1936.
Jóhann lést í bílslysi árið 1946, Bjarnfríður giftist ekki aftur en hún lést árið 1974. Þeim varð ekki barna auðið en áttu tvær kjördætur, þær Kristínu Guðmundsdóttur (f. 1926) og Sigríði Jónsdóttur. (f. 1924) Sigríður var bróðurdóttir Bjarnfríðar en margir þekktu hana sem Siggu á Vatnsnesi. Fósturbörn voru Guðný Helga Þorsteinsdóttir (f. 1911) Falur Siggeir Guðmundsson (1910-1962) og Annilíus Björgvin Jónsson (1902- 1982). Á heimilinu var oft mannmargt.
Bjarnfríður ákvað að gefa Keflavíkurbæ íbúðarhúsið og lóðina í kringum það til að reka þar safn eftir hennar dag. Þessi höfðinglega gjöf varð upphafið að rekstri Byggðasafnsins sem stofnað var af sveitarfélögunum Keflavík og Njarðvík árið 1978. Safnið var svo opnað almenningi í húsinu árið 1979. Lengst af var Vatnsnes aðalstöðvar safnsins, þar voru skrifstofur þess, geymsla muna, ljósmynda og skjala auk þess sem sýningar voru á mið- og rishæð. Á þeim rúmu 30 árum sem safnið hefur starfað hefur það vaxið mjög og eru aðalstöðvar safnsins nú í Rammanum í Innri-Njarðvík. Í framtíðinni er ráðgert að búa húsið heimilishlutum frá miðri síðustu öld til að minnast þessa heimilis og heimilisfólksins en fjöldi fólks á minningar tengdar í húsinu.