Dagskrá í tilefni sjómannadagsins verður haldin í Duushúsum sunnudaginn 6. júní n.k. og hefst í Bíósal klukkan 11.00 með helgistund í umsjón Ytri-Njarðvíkurkirkju. Sr. Baldur Rafn sér um helgistundina og tónlistin er í höndum Gunnhildar Höllu, organista.
Þrjú ný bátalíkön munu bætast í Bátasafn Gríms Karlssonar á sjómannadaginn þegar Hafsteinn Guðnason, formaður Félags áhugamanna um Bátasafnið, afhendir þau safninu fyrir hönd félagsins, tvö eftir Grím, bátana Ólaf Magnússon og Ingiber Ólafsson og eitt eftir Alexander Ólafsson, líkan af Guðfinni.
Við þetta tækifæri munu Ólafur Björnsson og Óskar Ingibersson segja frá þessum bátum. Einnig verður kynnt verkefni á vegum Byggðasafnsins þar sem Rannveig Garðarsdóttir hefur tekið viðtöl við aldraða sjómenn. Að lokum geta þeir sem vilja farið yfir á Kaffi Duus og fengið súpu á tilboði í tilefni dagsins.