Sjómannamessa í Duus Safnahúsum

Sjómannamessa verður haldin á vegum Njarðvíkursóknar á sjómannadaginn 2. júní kl. 11:00 í Bíósal Duus safnahúsa.
Félagar úr kór Njarðvíkurkirkju leiða söng við undirspil og stjórn Rafns Hlíðkvists Björgvinssonar organista. Séra Brynja Vigdís Þorsteinsdóttir þjónar. Við lok stundar verður gengið að minnismerki sjómanna á Bakkalág við Hafnargötu og þar lagður blómakrans frá Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis og Vísi, félagi skipstjórnarmanna á Suðurnesjum. Að athöfn lokinni verður boðið upp á kaffi og nýsteiktar kleinur og gestum gefst kostur á að skoða sýningar Byggðasafns Reykjanesbæjar og Listasafns Reykjanesbæjar.


Bátafloti Gríms og yfirlitssýning um Erling Jónsson
Í Bryggjuhúsinu eru fjórar sýningar á vegum Byggðasafns Reykjanesbæjar. Á jarðhæð eru annars vegar sýndar ljósmyndir af íbúum bæjarins í gegnum tíðina en hins vegar saumavélar úr safneign. Á miðloftinu er sýningin Eins manns rusl er annars gull. Þar eru hversdagslegir hlutir frá 20. öldinni dregnir fram í ljósið. Þeir eiga það sameiginlegt að hafa verið algengir hér áður fyrr en hafa með tímanum misst hlutverk sitt og eru þar af leiðandi að fágætari í dag. Á efstu hæð hússins má sjá bátaflota Gríms Karlssonar á nýrri sýningu. Bent er á að nú er komin lyfta í húsin sem auðveldar aðgengi að efri hæðum þess.

Listasafn Reykjanesbæjar setur upp tvær sýningar í sumar frá 6. júní – 18. ágúst. Í innri sal stendur yfir uppsetning á yfirlitssýningu á verkum listamannsins Erlings Jónssonar (1930-2022) úr einkasafni fjölskyldu hans. Einnig verða sýndar ljósmyndir af listamanninum sem eru í eigu listasafnsins. Listasafn Reykjanesbæjar er að flytja safneign sína í nýtt varðveisluhús í sumar og í því ferli hefur ýmislegt dýrmætt komið í ljós. Sýningin „Inn í ljósið“ samanstendur af verkum úr safneign og aðallega landslagsverkum eftir íslenska listmálara. Þar á meðal er verk eftir Jóhannes Kjarval sem listasafnið fékk að gjöf frá Íslandsbanka.

Allir sjómenn og fjölskyldur þeirra eru boðin sérstaklega velkomin við messuna.