Fyrir og eftir mynd frá horni Vesturgötu og Birkiteigs #teamHeiðarskóli. Ljósmynd af Facebook síðu Vinnuskólans.
Lið Myllubakkaskóla og lið Akurskóla unnu í liðakeppni Vinnuskóla Reykjanesbæjar. Úrslit voru tilkynnt í gær undir lok síðasta vinnudags A-tímabils. Mikill keppnisandi hefur verið hjá nemendum og flokkstjórum sem leitt hefur til aukinna afkasta, auk þess að gera vinnuna skemmtilegri.
Á Facebook síðu Vinnuskólans má sjá að nemendur skólans tilheyra liðum og eru liðin merkt með myllumerki og heiti liðs. Þannig er í skólanum #teamholtaskóli, #teamheiðarskóli o.s.frv. en hóparnir kenna sig við sín skólahverfi. Þau taka myndir fyrir og eftir framkvæmdir og birta á Facebook og þannig verður til keppni þeirra á milli. „Þetta er þriðja sumarið sem við höfum slíka keppni. Auk þess að dæma eftir myndunum er líka tekið mið af því hversu afkastamikil og duglegir hóparnir hafa verið,“ segir Berglind Ásgeirsdóttir skólastjóri Vinnuskólans.
Berglind segir hugmyndina hafa kviknað hjá nemendunum sjálfum og flokkstjórum þeirra. Keppnin virki mjög vel enda kveiki hún greinilega keppnisskap hjá nemendum en ekki síður hjá flokkstjórum. Vinningsliðin fengu pizzuveislu á Langbest í lok síðasta vinnudags.
B-tímabil vinnuskólans hefst mánudaginn 3. júlí og er enn hægt að skrá ungmenni í vinnu á því tímabili.
Hér má heimsækja Facebook síðu vinnuskólans.