Skessudagar í Reykjanesbæ 13. - 14. nóvember

Skessan býður alla velkomna í hellinn sinn.
Skessan býður alla velkomna í hellinn sinn.

Skessudagar verða haldnir í Reykjanesbæ um helgina en þá verður kveikt á jólaskreytingum í bænum og fjölskyldum gefinn kostur á skemmtilegri samveru á hinum ýmsu stöðum í bænum.

Það er Skessan í hellinum sem býður til hátíðarinnar en henni til aðstoðar er Fjóla tröllastelpa sem lítur við í hellinn hennar kl. 14:00 á laugardeginum en þar verður boðið upp á heitt súkkulaði.

Skessan tekur fagnandi á móti snuddum eða öðru jólaskrauti á tréð sitt í hellinum enda er hún að komast í jólaskap. Krakkar eru hvattir til þess að senda henni bréf eða mynd í póstkassann hennar í hellinum sem birt verða á vefnum skessan.is. Verðlaun verða veitt fyrir skemmtileg bréf og myndir við tendrun jólatrésins 4. desember n.k.

Meðal dagskrárviðburða má nefna Listaleiðsögn fyrir börn kl. 15:00 á laugardeginum, Rauðhöfða í Duushúsum, dótadag í fjölskyldusundlauginni Vatnaveröld, Sæmund fróða og þjóðsögur í þrívídd á bókasafninu, andlitsmálun og sköpun skemmtilegra listaverka í Svarta Pakkhúsinu og skemmtilega skessumessu í Keflavíkurkirkju.
Innileikjagarðurinn á Ásbrú verður opinn sem og Svartholið, línu- og hjólaskautagarður í 88 Húsinu og fjölskyldan getur púttað saman hjá Púttklúbbinum.

Sjá dagskrá á vef skessunnar þegar nær dregur: skessan.is