Heiðarskóli fær hvatningarverðlaun.
Hvatningarverðlaun fræðsluráðs Reykjanesbæjar voru afhent í þriðja sinn við hátíðlega athöfn föstudaginn 11. júní sl. sem er afmælisdagur Reykjanesbæjar.
Hvatningarverðlaunin eru ætluð kennurum, kennarahópum og starfsmönnum í leikskólum, grunnskólum og tónlistarskóla bæjarins. Verðlaunin eru veitt fyrir starf eða verkefni sem þykja skara fram úr og vera öðrum til eftirbreytni.
Í ár fengu 20 verkefni/aðilar viðurkenningu fræðsluráðs. Hvatningarverðlaunin í ár fékk Helena Ósk Jónsdóttir fyrir verkefnið Skólahreysti í Heiðarskóla, í öðru sæti var Stefán Jónsson húsvörður í Myllubakkaskóla og í þriðja sæti voru Steindór Gunnarsson og Ingibjörg Kjartansdóttir starfsmenn í sérdeildinni Björk.
Formaður fræðsluráðs Garðar K. Vilhjálmsson afhenti verðlaunin en veitt eru peningaverðlaun auk glerlistaverks sem unnið er af Iceglass.
Umsögn dómnefndar:
Helena Ósk hefur þjálfað nemendur Heiðarskóla undanfarin ár fyrir keppnina Skólahreysti og hafa nemendur náð mjög góðum árangri þar, sigruðu í fyrra og urðu í öðrus æti í ár.
Stefán Jónsson húsvörður í Myllubakkaskóla er alltaf boðinn og búinn að aðstoða og leggja sitt af mörkum. Hann hefur málað nokkur listaverk fyrir skólann og leiðbeint í listaviku nemenda svo eitthvað sé nefnt.
Steindór Gunnarsson og Ingibjörg Kjartansdóttir hafa unnið mikið og gott starf í gegnum árin og nú í vetur hafa þau unnið sérstaklega að eflingu félagsfærni, aukinni sjálfstjórn nemenda og siðgæðisþjálfun.