Þriðjudaginn 3. nóvember hófst skólastarf í grunnskólum aftur í samræmi við breyttar og hertar sóttvarnarreglur. Markmiðið var að skerða skólastarf eins lítið og mögulegt var út frá þeim ramma sem sóttvarnaryfirvöld settu starfseminni. Fræðsluyfirvöld og stjórnendur grunnskóla töldu mikilvægt að halda áfram að veita nemendum skólamáltíðir þrátt fyrir að nemendur væru að mæta á öðrum tímum en venjulega. Hér er um lýðheilsumál að ræða þar sem að skólamáltíðir eða innihaldsríkur hádegismatur er mikilvægur hluti af daglegri næringu grunnskólabarna.
Til að hægt væri að bregðast við þessum óskum virkjaði Skólamatur neyðaráætlun sem fólst í því að einfalda matseðil og framsetningu máltíða. Með breytingunni varð framkvæmdin þannig að hluti nemenda sem hélt sinni mataraðstöðu í matsal fékk hefðbundna matarþjónustu en aðrir fengu einfalda máltíð í einnota mataríláti afgreidda inn í kennslustofur eða til að taka með sér heim ef nemandinn kaus það. Fyrsta daginn í þessum hertu sóttvarnaraðgerðum tókst framkvæmd þessarar áætlunar ekki eins og lagt var upp með. Skólamatur breytti áætlun sinni strax á degi tvö og hefur frá þeim degi tryggt að allir nemendur fái máltíð samkvæmt matseðli. Grunnskólarnir breyttu einnig sínu skipulagi þannig að öllum nemendum stóð til boða að borða matinn í skólanum áður en þeir fóru heim.
Á tímum heimsfaraldurs hefur mikið mætt á okkar samfélagi og hefur markmið yfirvalda verið nokkuð skýrt, þ.e. að standa vörð um yngstu kynslóðina og tryggja sem minnstu skerðingu á skólastarfi eins og frekast er kostur. Samstarf fræðsluyfirvalda og forsvarsmanna Skólamatar hefur verið gott allan þennan tíma og erum við þakklát fyrir hversu vel þeim hefur tekist að veita nemendum okkar hollar skólamáltíðir á krefjandi tímum.
Fræðsluyfirvöld vilja þakka Skólamat fyrir þeirra framlag til lýðheilsu grunnskólanemenda á erfiðum tímum. Það skiptir máli að vinna saman að hag barnanna.