Til vinstri á myndinni má sjá yfirbyggða þurrkví eins og hún gæti litið út að loknum framkvæmdum
Í dag undirrituðu Skipasmíðastöð Njarðvíkur, Reykjanesbær og Reykjaneshöfn viljayfirlýsingu um uppbyggingu hafnar- og upptökumannvirkja í Njarðvík og mynda með því sterkan grunn að uppbyggingu skipaþjónustuklasa.
Verkefnið sem hér um ræðir snýr að bættri aðstöðu í Njarðvíkurhöfn þannig að unnt sé að skapa tækifæri margra fyrirtækja til byggingar skipaþjónustuklasa sem getur umbylt aðstöðu til þjónustu við íslenskan og erlendan skipaflota og skapað störf.
Þar skiptir mestu að reist verður yfirbyggð þurrkví sem getur sinnt stórum skipum án veðuráhrifa allt árið. Aðstaða við Njarðvíkurhöfn verður þannig fyrir nánast allar gerðir skipa fiskveiðiflotans. Forsenda þessa er að Reykjaneshöfn geri nýjan skjólgarð í Njarðvíkurhöfn sem mun umbreyta allri hafnaraðstöðu þar og skapa möguleika fyrir byggingu kvíarinnar.
Skipasmíðastöð Njarðvíkur undirbýr nú að fjárfesta í yfirbyggðri skipakví sem myndi umbylta skipaþjónustu á Íslandi. Kvíin væri rúmlega 100 metrar á lengd og yfir 20 metra breið. Verkefnið er m.a. að ná auknum hluta íslenskra skipa sem nú sigla í slipp til annarra landa sem og að ná skipum af norðurslóðum til landsins. Með umræddu húsi stórbætast möguleikar á hvers kyns viðhaldsverkefnum sem annars eru keypt erlendis. Svo stór og yfirbyggð kví ásamt landi og aðstöðu í og við Njarðvíkurhöfn skapar skilyrði fyrir skipaþjónustuklasa með mörg hundruð störfum.
Þjónustuklasinn mun leggja áherslu á þjónustu við skip á norðurslóðum, íslensk sem erlend, til viðhalds, breytinga og endurnýjunar. Auknar kröfur um betri mengunarvarnir í skipum, skipti yfir í vistvæna orku og lækkun orkukostnaðar, skapa ný tækifæri á þessu sviði. Hugmynd Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur gengur út á að nýta sérþekkingu á margvíslegum sviðum sem safnast hefur upp hjá vél- og stálsmiðjum víða á landinu. Öflug málmvinnslufyrirtæki af höfuðborgarsvæðinu fengju stóraukin tækifæri. Þannig yrði þjónustuklasinn byggður á fjölda fyrirtækja, hverju með sína sérhæfingu.
Þjónustuklasinn getur tiltölulega fljótt skapað á annað hundrað störf og samfélaginu umtalsverðar tekjur til framtíðar. Bein vinna í hinni nýju kví kallar á 70-80 heilsársstörf auk óbeinna starfa. Varlega áætlað er gert ráð fyrir að verkefni sem tengjast kvínni fyrst um sinn skapi þannig um 120 störf. Ekki er óraunhæft að ætla að á fáum árum gæti orðið til í Njarðvík þekkingarklasi í viðhaldi og þjónustu við skip sem teldi um 250 - 350 bein og óbein störf.
Áætlaður framkvæmdatími verkefnisins er þrjú ár frá því að fjármögnun þess liggur fyrir.