Falleg árdegismynd frá Reykjanesbæ. Ljósmynd: OZZO
Aðlögunaráætlun Reykjanesbæjar fyrir árin 2017 – 2022 var samþykkt á bæjarstjórnarfundi síðdegis í dag en samkvæmt henni mun lögbundið skuldaviðmið nást á þeim tíma, en slíkt er nauðsynlegt samkvæmt lögum. Núverandi meirihluti Reykjanesbæjar, sem tók við stjórn bæjarins árið 2014, hefur unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu sveitarfélagsins frá þeim tíma, en Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hafði krafið bæinn um aðlögunaráætlun til að uppfylla skilyrði laga um skuldaviðmið.
„Aðlögunaráætlunin byggir á þeirri framtíðarsýn að í Reykjanesbæ ríki áfram mikill kraftur og uppbygging með tilheyrandi fólksfjölgun, fyrsta flokks þjónustu og auknum lífsgæðum. Til að ná markmiðinu þurftum við að lækka skuldir og auka tekjur með aðgerðaráætlun okkar, sem fékk nafnið Sóknin og kynnt var í október 2014. Við settum okkur fjögur markmið. Að reka bæinn okkar með afgangi til lengri tíma en ekki halla eins og verið hefur um árabil. Að hafa hemil á fjárfestingum. Að gera B-hluta stofnanir sjálfbærar og stöðva streymi fjármagns úr grunnþjónustu bæjarins. Og loks að endurskipuleggja efnahaginn með lækkun skulda. Þetta hefur tekist og því ber að fagna,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.
„Reykjanesbær var langt yfir 150% skuldaviðmiði þegar við tókum við árið 2014 og bærinn var í einni erfiðustu stöðu sveitarfélaga á landinu. Skuldirnar voru að mestu leyti til komnar vegna ýmissa verkefna, fjárfestinga og skuldbindinga, ekki síst vegna leiguskuldbindinga Eignarhaldsfélagið Fasteign ehf. Erfiðasta verkefnið var í raun að semja við kröfuhafa en nú liggur fyrir óundirritað samkomulag sem við vonumst til að gengið verði frá innan skamms. Aðlögunaráætlun okkar gerir ráð fyrir að tekjur Reykjanesbæjar haldi áfram að vaxa með fjölgun íbúa, hærra atvinnustigi og auknum tekjum Reykjaneshafnar í kjölfar aukinnar skipaumferðar vegna uppbyggingar hafnsækinnar starfsemi í Helguvík. Við reiknum með að lækka útsvar bæjarbúa til jafns við það sem gengur og gerist á landinu, endurfjármögnum skuldir Reykjaneshafnar og gerum ráð fyrir að Eignarhaldsfélaginu Fasteign ehf. verði skipt í tvennt, en á móti kemur talsverð útgjaldaaukning vegna nýrra grunn- og leikskóla svo eitthvað sé nefnt,“ segir Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.
Aðlögunaráætlun Reykjanesbæjar verður endurskoðuð eftir því sem forsendur breytast fram til ársins 2022 en hún og forsendur hennar hefur verið kynnt kröfuhöfum, eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélag og fleiri aðilum sem hagsmuna eiga að gæta.
Nánari upplýsingar veitir Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri
Aðlögunaráætlun Reykjanesbæjar 2017 - 2022