Starfið í grunnskólunum í Reykjanesbæ, Garði og Sandgerði hófst formlega í dag, miðvikudaginn 15. ágúst, með sameiginlegum starfsdegi. Gylfi Jón Gylfason, fræðslustjóri, ávarpaði starfsfólk með hvatningu um að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið, að efla námsárangur í skólum á svæðinu. Framundan er vinna við endurskoðun skólastefnu Reykjanesbæjar og útfærslu á nýrri Aðalnámskrá grunnskóla. Flutt voru tvö erindi, Þóra Björk Jónsdóttir, kennslu- og sérkennslufulltrúi, fjallaði um námsmat samkvæmt nýrri námskrá grunnskóla og Sigurður Þorsteinsson, sálfræðingur, fjallaði um samstarf og samvinnu innan grunnskólanna.