Gunnar Þór Jónsson kvaddur í Heiðarskóla.
Gunnar Þór Jónsson hefur látið af störfum sem skólastjóri Heiðarskóla. Af því tilefni söfnuðust nemendur og starfsfólk Heiðarskóla saman til að kveðjustundar í liðinni viku. Við sama tækifæri færðu bæjarstjóri og fræðslustjóri Gunnari þakkir við starfslok hans.
Gunnar Þór hefur starfað við kennslu og stjórnun grunnskóla Reykjanesbæjar í nærfellt 40 ár, framan af við Myllubakkaskóla og síðar Heiðarskóla þar sem hann hefur verið skólastjóri síðan 2001.
Störfum sínum sem skólastjóri og kennari sinnti hann af alúð og natni og sýndi mikinn metnað og fagmennsku. Hann var vel liðinn af samstarfsfólki og náði vel til nemenda, bæði í leik og starfi. Sem stjórnandi Heiðarskóla leiddi hann einstaklega farsælt skólastarf sem setti skólann í röð fremstu skóla landsins.
Um leið og frábær samstarfsmaður er kvaddur eru honum færðar þakkir fyrir vel unnin störf með von um að við taki skemmtilegir tímar með nýjum og spennandi verkefnum.