Hér sést hvernig Orlik hallaði við bryggju í Njarðvík.
Reykjaneshöfn fékk tilkynningu á tíunda tímanum í gærkvöldi um að togarinn Orlik hallaði ískyggilega við bryggju í Njarðvík og virtist vera að sökkva. Við skoðun kom í ljós að ástandið var mjög alvarlegt og voru björgunaraðilar kallaðir til ásamt starfsmönnum hafnarinnar. Fundað verður í dag um framhaldið.
Strax í gærkvöldi var mengunarvarnargirðing umhverfis skiptið sett út og hafist handa við að dæla úr skipinu. Um kl. 02:00 var ástandið orðið stöðugt og í morgun var lokið við framkvæmdir. Við skoðun kom í ljós að þriggja cm. gat hafði komið á skipið undir sjólínu. Búið er að loka því gati. Orsakirnar liggja í tæringu á byrðingi skipsins.
Þessi uppákoma sýnir að skipið er í mjög slæmu ástandi. Vonir standa til að hægt verði að rífa skipið á starfssvæði Skipasmíðastöðvarinnar í Njarðvík.
Á vef Víkurfrétta má sjá fleiri myndir frá vettvangi