Horft yfir jarðvarmasvæðið á Reykjanesi.
Mikið jarðhitasvæði er innan marka Reykjanesbæjar á Reykjanesi, auk þess sem bærinn er meirihlutaeigandi í HS veitum hf. sem veita heitu- og köldu vatni auk rafmagns til heimila og fyrirtækja á Suðurnesjum og víðar. Þau tækifæri sem felast í nýtingu jarðvarma eru í auknum mæli að verða að atvinnuverkefnum á svæðinu. Má þar nefna fiskþurrkun og fullvinnslu sjávarafurða á Reykjanesi auk fiskeldisstöðva þar eins og Stolt Seafarm og Stofnfisk og raforkuframleiðslu fyrir stóriðnað í Helguvík, auk almennrar heitavants- og raforkusölu til stórra sem smárra fyrirtækja á svæðinu. Því þótti bæjarráði Reykjanesbæjar mikilvægt að verða fyrsta sveitarfélagið til að gerast stofnaðili að hinum almennu jarðvarmasamtökum, Iceland geothermal.
Hlutverk samtakanna er að efla samkeppnishæfni innan hins íslenska jarðvarmaklasa með virðisauka greinarinnar og bætta nýtingu auðlindarinnar að leiðarljósi. Tilgangi sínum hyggst félagið ná með skipulögðu samstarfi. Stofnaðilar eru 43. Auk Reykjanesbæjar eru þar helstu jarðvarmafyrirtæki landsins, menntastofnanir og fjölmörg fyrirtæki sem sinna greininni. Þar sést glöggt hversu víðtæk áhrif jarðvarmaklasans á atvinnulífið eru núþegar. Fjölmörg þátttökufyrirtæki hafa starfsstöðvar á Reykjanesi. Meðal aðila með lögheimili í Reykjanesbæ eru Keilir, þróunarfélag Keflavíkurflugvallar og HS orka hf.