Þátttakendur í lokahátíð.
Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fór fram, í sextánda sinn hér í Reykjanesbæ, í bíósal Duushúsa 7. mars 2013. Fjórtán keppendur frá sex grunnskólum í Reykjanesbæ og grunnskólanum í Sandgerði tóku þátt í keppninni. Það er sérstakt við Stóru upplestrarkeppnina að í flestum skólunum taka allir nemendur í 7. bekk þátt í keppninni frá upphafi hennar, á degi íslenskrar tungu 16. nóvember ár hvert. Það er ekki fyrr en í lok febrúar að hver skóli velur fulltrúa úr hópi nemenda sem keppa fyrir hönd skólans á lokahátíðinni. Fluttar voru svipmyndir úr sögunni Benjamín Dúfa, eftir Friðrik Erlingsson, og lesin ljóð eftir Þóru Jónsdóttur en þau voru skáld Stóru upplestrarkeppninnar í ár. Einnig lásu flytjendur ljóð að eigin vali. Það var samdóma álit dómnefndar að keppendur hafi allir staðið sig mjög vel. Keppendur fengu bókaverðlaun og rósir en keppendur í þremur efstu sætunum fengu auk þess viðurkenningarskjal og gjafabréf. Í þremur efstu sætunum voru:
1. sæti: Jón Ragnar Magnússon, Njarðvíkurskóla
2. sæti: Svanur Þór Mikaelsson, Heiðarskóla
3. sæti: Jón Páll Magnússon, Akurskóla
Fræðslustjóri, Gylfi Jón Gylfason flutti ávarp og bauð upplesara og gesti velkomna. Nemendur úr Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, sem allir eru í 7. bekk, juku á hátíðleikann með fjölbreyttum tónlistaratriðum. Dómnefnd skipuðu Ingibjörg Einarsdóttir frá Röddum, Dröfn Rafnsdóttir, Hafdís Garðarsdóttir og Helgi Hólm.
Raddir – samtök um vandaðan upplestur og framburð sjá um skipulag og útgáfu efnis, en önnur framkvæmd og skipulag keppninnar fer fram á Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar og í skólunum. Keppnin er styrkt af ýmsum aðilum. Félag bókaútgefenda gefur út sérprentað rit sem allir keppendur á lokahátíðinni fengu að gjöf. Raddir ásamt ýmsum styrktaraðilum gáfu sigurvegurum gjafabréf og allir þátttakendur fengu rósir frá Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar.