Forskóladeild Tónlistarskóla Reykjanesbæjar stendur fyrir tvennum stórtónleikum í Stapa Hljómahöll fimmtudaginn 3. mars kl. 17:00 og 18:00. Á tónleikunum koma fram nemendur Forskóla 2, sem eru allir nemendur 2. bekkja grunnskólanna ásamt miðsveit Lúðrasveitar TR og eldri strengjasveit TR.
Á fyrri tónleikunum koma fram forskólanemendur úr Akurskóla og Heiðarskóla en nemendur úr Háaleitisskóla, Holtaskóla, Myllubakkaskóla og Njarðvíkurskóla á þeim seinni. Hvorir tónleikar um sig standa í um 30 mínútur. Á tónleikunum koma fram alls um 255 börn og unglingar, þar af um 220 forskólanemendur. Aðgangur er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.
Forskóladeildin hefur um árabil staðið fyrir tónleikahaldi einu sinni á vetri, ásamt lúðrasveitinni. Á fyrstu tónleikunum voru það einungis um 40 forskólanemendur sem léku sem gestir með lúðrasveitinni á tónleikum í Kirkjulundi, en strax árið eftir var ákveðið að fara með tónleikana á milli allra grunnskólanna þar sem forskólinn væri í fyrirrúmi og hafa aðra hljómsveit með auk lúðrasveitarinnar, sem hafa ýmist verið rokkhljómsveitir, trommusveit eða strengjasveit. Þessu fyrirkomulagi var haldið þar til á síðasta ári, að ákveðið var að fara ekki í grunnskólana með tónleikahaldið, heldur halda tvenna tónleika í Stapa. Þeir heppnuðust sérlega vel og var almenn ánægja með þetta nýja fyrirkomulag. Forskólatónleikarnir verða því með sama sniði nú.