Frá 15 ára afmælissýningu Listasafns Reykjanesbæjar
Það væri synd að missa af stórskemmtilegum sumarsýningum í Duus Safnahúsum sem lýkur nú á sunnudag. Í Listasal, Bíósal og Stofu eru sýningar úr safneign Listasafns Reykjanesbæjar eftir tæplega 60 listamenn.
Safnið fagnar 15 ára afmæli í ár og hafa flest verkanna sem sýnd eru borist safninu á þessu tímabili. Meðal annars er Stofan helguð verkum eftir listmálarann Ástu Árnadóttur sem er heimamönnum að góðu kunn en börn hennar færðu safninu veglega listaverkagjöf fyrir skemmstu. Í Listasalnum eru verk af margvíslegu tagi s.s. olíuverk, vatnslitamyndir, skúlptúrar eftir hina ýmsu listamenn en þó fyrst og fremst samtímamenn. Í bíósal gefur hins vegar að líta mannamyndir af ýmsu tagi. Sýningarstjóri allra sýninganna er Inga Þórey Jóhannsdóttir.
Í Gryfjunni gefur að líta mjög áhugaverða sýningu sem ber heitið „Hlustað á hafið“ en um er að ræða fyrstu sýningu nýs safnstjóra Byggðasafns Reykjanesbæjar, Eiríks Páls Jörundssonar, í sýningarhúsum bæjarins. Sýningin fjallar um náin tengsl sjómanna árabátatímans við sjóinn og fórnir þeirra við að ná í gull hafsins, sem öllu máli skipti fyrir lífsafkomuna.
Ókeypis aðgangur er á sýningarnar og Duus Safnahús eru opin alla daga frá 12-17.