Börnin í bænum búa til hátíðina
Barnahátíðin sem hófst á miðvikudag í síðustu viku náði hápunkti sínum um helgina með fjölbreyttri dagskrá fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Á sjötta tug atriða voru á dagskrá hátíðarinnar og ókeypis á þá alla. Allir 10 leikskólar bæjarins, allir 6 grunnskólarnir, tónlistarskólinn og dansskólarnir Bryn Ballett Akademían og Danskompaní tóku þátt í hátíðinni svo augljóst er að hátíðin hefur snert með einum eða öðrum hætti flestar fjölskyldur hér í bæ.
Á sjötta tug atriða
Um helgina fóru fram hátíðarhöld á svæðinu við Víkingaheima og Duushús. Fjöldi fólks var á ferðinni og virtist njóta sín ljómandi vel við þátttöku í hinum ýmsu viðburðum hátíðarinnar. Meðal þess sem boðið var upp á var sirkussýning og smiðja, leikfangamarkaður barnanna, hestateyming, bangsasmiðja, galdrakarla- og nornasmiðja, lummur hjá Skessunni, tívolítæki, lifandi tónlistar- og dansatriði á hinum ýmsu stöðum og svona mætti áfram telja. Þótt hátíðinni sé formlega lokið stendur glæsileg Listahátíð barna áfram í Duushúsum til 22. maí.
Vettvangur skemmtilegrar og skapandi samveru
Að hátíðinni lokinni vill Reykjanesbær koma á framfæri þökkum til allra þátttakenda í hátíðinni og þeirra sem hönd lögðu á plóg við undirbúning hennar. Markmið þessarar árlegu Barnahátíðar er að skapa vettvang og koma á framfæri því frábæra starfi sem unnið er með börnum hér í bæ auk þess að bjóða upp á möguleika til skemmtilegrar og skapandi samveru foreldra og barna, óháð efnahag, enda allt ókeypis. Aðstandendur hátíðarinnar vona að hún hafi mælst vel fyrir og að hún muni einungis vaxa og dafna á komandi árum með öflugri þátttöku barnanna í bænum sem við getum svo sannarlega öll verið stolt af.