Þátttökuverðlaun og könnun um BAUN

Á myndinni má sjá heppna verðlaunahafa á BAUN ásamt Höllu Karen Guðjónsdóttur, viðburðastjóra BAUNa…
Á myndinni má sjá heppna verðlaunahafa á BAUN ásamt Höllu Karen Guðjónsdóttur, viðburðastjóra BAUNar, Gísla Hlyni Jóhannssyni rekstrarstjóra Húsasmiðjunnar og Guðlaugu Maríu Lewis menningarfulltrúa.

Það voru glaðir og kátir krakkar sem tóku við þátttökuverðlaunum fyrir þátttöku í BAUN, barna- og ungmennahátíð í vikunni en þeir duttu svo sannarlega í lukkupottinn þegar nöfn þeirra voru dregin úr stórum potti BAUNabréfa sem skilað hafði verið inn. Tvö heppin hlutu trampólín frá Húsasmiðjunni og tíu krakkar fengu gjafabréf fyrir fjölskylduna á Huppu. Verðlaunaafhendingin fór fram í Húsasmiðjunni í Reykjanesbæ sem hefur stutt dyggilega við verkefnið og eru þeim færðar bestu þakkir fyrir sitt framlag.

Þátttaka í BAUN sem fram fór dagana 2. – 12. maí var einstaklega góð og bærinn iðaði af lífi þar sem börn og fjölskyldur fóru um og leystu ýmsar þrautir, tóku þátt í smiðjum og viðburðum og söfnuðu um leið stimplum og svörum í BAUNabréfið sitt. Sem dæmi um þátttökuna má nefna að um 5.300 manns lögðu leið sína í Duus safnahús á meðan á hátíðinni stóð. Í kringum 60 dagskrárliðir voru á dagskrá hátíðarinnar og voru börn, ungmenni og fjölskyldur hvött til að taka þátt í því sem þau höfðu löngun til og skila svo inn BAUNabréfinu og komast í lukkupottinn.

 

Könnun sýnir mikla ánægju

Markmiðin með hátíðinni eru m.a. þau að auka lífsgæði og vellíðan barna og íbúa Reykjanesbæjar og jafnframt að skapa vettvang fyrir börn og fjölskyldur til virkrar þátttöku í samfélaginu. Að lokinni hátíðinni var stutt könnun sett í loftið til að gefa foreldrum og aðstandendum kost á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri varðandi hátíðina og fyrirkomulag hennar. Svörin sem bárust munu nýtast mjög vel við undirbúning næstu BAUNar sem fer fram 2.-11. maí árið 2025.

Helstu niðurstöður voru eftirfarandi:

97,7 % þeirra barna sem svarað var fyrir voru mjög eða frekar ánægð með þátttöku sína í BAUN.

95,2 % þeirra foreldra sem svöruðu voru mjög eða frekar ánægð með BAUN.

96,5% þeirra foreldra sem svöruðu tóku þátt í dagskrá BAUNar með barninu sínu.

47 % barna tóku þátt í 6 viðburðum eða fleiri og 79% tóku þátt í 4 viðburðum eða fleiri.

Við spurningunni um hvort einhverjir dagskrárliðir hefðu staðið upp úr bárust ótal ólík svör sem gefur vísbendingu um að í fjölbreyttri dagskrá geti flestir fundið eitthvað við sitt hæfi. Til þess er leikurinn einmitt gerður. Ýmsar ábendingar um það sem betur má fara bárust einnig og nýtast þær vel við undirbúning næstu BAUNar.

Við endum þessa samantekt á þessu skemmtilega svari úr könnuninni: .“Mér finnst nýting á áhugaverðum stöðum í bænum (s.s. Byggðasafnið, Rokksafnið, Stekkjarkot o.s.frv.) standa upp úr, það gefur manni tækifæri til að skoða staðina og sýna barninu sínu hvað Reykjanesbær hefur merkilega sögu og menningu að geyma.“

Við hlökkum til að sjá ykkur á næstu BAUN, 2.-11. maí 2025.

Á facebooksíðu BAUNar má sjá mikið af myndum frá hátíðinni.