Þriðja rafræna gagnaverið er nú að hefja uppbyggingu í Reykjanesbæ. Samþykkt var framkvæmdaleyfi á 21 þúsund fermetra lóð undir gagnaver í dag á 20 ára afmæli Reykjanesbæjar.
Um er að ræða fyrirtækið Borealis Data Center, sem hefur fengið framkvæmdaleyfi á svæði sunnan við lóðir Advania í Reykjanesbæ . Stærð lóðar er á við 3 knattspyrnuvelli. Framkvæmdir hefjast á morgun.
Mikil gróska er í uppbyggingu gagnavera í Reykjanesbæ. Í febrúar 2012 var gagnaver Vernbe Global að Ásbrú opnað og hýsir nú gögn m.a. fyrir BMW, opin kerfi, CCP, Colt ofl. Þá hefur Advania byggt og sett af stað 2500 fermetra gagnaver sunnan Fitja í Reykjanesbæ. Um 80 alþjóðlegir aðilar nýta sér þjónustu gagnavera Advania í dag. Stærsti einstaki viðskiptavinurinn er norska hugbúnaðarfyrirtækið Opera Software.
"Þetta er mjög ánægjuleg þróun fyrir atvinnulífið í Reykjanesbæ. Svæðið sem við höfum skipulagt sunnan Fitja er nærri tengivirki HS orku og hentar einkar vel til framtíðaruppbyggingar gagnavera og tölvu- og hugbúnaðarfyrirtækja þeim tengdum" segir Árni Sigfússon bæjarstjóri. "Svæðið sem um ræðir er á við 30 knattspyrnuvelli og því næg tækifæri til frekari stækkunar gagnavera og tengdrar starfsemi. Að undanförnu hafa yfir 60 manns unnið við uppsetningu gagnavers Advania og unnið á vöktum til að hraða uppbyggingunni, vegna mikillar ásóknar erlendra aðila í að nýta sem fyrst þjónustu Advania. Kosturinn við okkar stjórnkerfi hefur verið að við höfum sett fram markmið um slíka uppbyggingu, skipulagt svæði, undirbúið verkefnið vel og erum fljót að bregðast við óskum öflugra fyrirtækja" segir Árni.