Unga fólkið skemmtir sér í sundlaugarpartý. Ljósmynd: Víkurfréttir
Bæjarbúar og gestir fjölmenntu á Ljósanótt í gær þegar hátt í 40 sýningar voru opnaðar víðsvegar um bæinn. Stór hópur barna gerðu sér glaðan dag í sundmiðstöðinni þar sem skífur voru þeyttar.
Ljósanætursýning Listasafns Reykjanesbæjar í ár er innblásin af verkefni sem Færeyingar efndu til. Sú sýndi eitt ár í lífi Færeyinga í ljósmyndum, „Föroyar i et år“. Efnt var til samskonar ljósmyndasamkeppni fyrr á árinu undir kjörorðinu „Eitt ár á Suðurnesjum“. Vel á annað hundrað myndir bárust. Sex þeirra urðu að verðlaunamyndum. Rúmlega 70 til viðbótar voru stækkað í hlutföllum við gæði mynda og hengdar upp í listasal Duus Safnahúsa. Í Bíósalnum eru verðlaunamyndir úr Færeyska verkefninu, ásamt skjámyndum af öllum þeim myndum sem sendar voru inn á sýningarnar.
Yngri kynslóðin fór á Ljósanæturskemmtun í félagsmiðstöðinni Fjörheimum og skellti sér síðan í sundlaugarpartý í sundmiðstöðinni. Á meðan gátu þeir fullorðnu þrætt sýningar og spjallað við gesti og gangandi.
Ljósanæturfjörið heldur áfram í dag. Í hádeginu mun starfsfólk Ráðhússins bjóða til söngstundar undir stjórn bæjarstjóra. Þaðan má skella sér í Götupartý við útisvið neðar í götunni. Við Reykjanesvita verður konungleg athöfn kl. 14:00 þegar skjaldamerki Kristjáns IX verður afhjúpað.
Sýningarnar opna síðan hver á fætur annarri. Einn athyglisverðasti dagskrárliður dagsins er án efa tónleikar með S.Hel og sýning á myndinni Battleship Petemkin í Bókasafni Reykjanesbæjar. Píanóið leikur lykilhlutverk í tónlistinni en það er umvafið elektrónískum hljóðheimi.
Kjötsúpa Skólamatar verður á sínum stað við Smábátahöfnina í kvöld þegar slegið verður upp Bryggjuball. Tónlistin mun svo duna fram eftir nóttu, fyrst á Heimatónleikum í gamla bænum en þaðan færist fjörið inn á skemmti- og veitingastaði bæjarins.