Dr. Janus Guðlaugsson með þátttökuhóp í sameiginlegri þolþjálfun í Reykjaneshöll.
Senn líður að því að fyrsti þátttökuhópurinn í verkefninu Fjölþætt heilsuefling 65+ í Reykjanesbæ verður útskrifaður og þriðji hópurinn tekinn inn í verkefnið. Kynningafundur fyrir nýja þátttakendur verður haldinn að Nesvöllum fimmtudaginn 31. janúar kl. 19:30.
Verkefnið Fjölþætt heilsuefling 65+ hófst í Reykjanesbæ um miðjan maí 2017. Markmið verkefnis er að gera eldri einstaklinga hæfari til að takast á við breytingar sem fylgja hækkandi aldri og spyrna við fótum gegn ýmsum öldrunareinkennum með markvissri þjálfun. Markvissar þol- og styrktaræfingar eru lykilatriði í þátttöku auk fræðsluerinda um bætta næringu, lyfjanotkun samhliða þjálfun og ýmsa aðra heilsutengda þætti.
Á kynningarfundi verður farið yfir markmið verkefnis, skipulag þess og helsta ávinning af verkefninu hingað til. Að loknum kynningarfundi á fimmtudag verður hægt að sækja um þátttöku í verkefninu sem mun hefjast um miðjan febrúar. Verkefnið er samstarfsverkefni Reykjanesbæjar, Janusar heilsueflingar slf, Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og Sóknaráætlunar Suðurnesja.
Frekar upplýsingar veitir Lára Janusdóttir í netfanginu lara@janusheilsuefling.is.