Þrettándagleði verður haldin í Reykjanesbæ laugardaginn 6. janúar 2024.
Hátíðin hefst kl. 17:00 með blysför frá Myllubakkaskóla þar sem gengið verður í fylgd álfakóngs, drottningar og hirðar þeirra að hátíðarsvæði við Hafnargötu 12. Foreldrar eru hvattir til að leyfa börnunum að taka virkan þátt í gleðinni með því að klæða sig upp í ýmis gervi, jafnvel púkagervi en einnig hvetjum við fólk til að mæta með luktir í blysförina til að lýsa upp gönguna.
Á hátíðarsvæðinu verður það sjálf Grýla gamla sem tekur á móti hersingunni, álfar munu hefja upp raust sína og syngja þrettándasöngva og alls kyns kynjaverur verða á sveimi á svæðinu.
Þrettándabrennan verður á sínum stað við Ægisgötu og gestum verður boðið upp á heitt kakó til að ylja sér.
Í lok dagskrár verða jólin kvödd að hætti Björgunarsveitarinnar Suðurnes með glæsilegri flugeldasýningu eins og þeim einum er lagið.
Karlakór Keflavíkur, Kvennakór Suðurnesja, Leikfélag Keflavíkur, Skátafélagið Heiðabúar, Björgunarsveitin Suðurnes og lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar taka þátt í dagskránni.