Glaðbeittir NES-arar. Ljósmynd: VF
Dagana 25. júlí til 3. ágúst næstkomandi verða Alþjóðaleikar Special Olympics í Los Angeles. Íþróttasamband fatlaðra og Special Olympics á Íslandi munu senda 41 keppenda af öllu landinu á þessa leika og þar af eru 10 þeirra héðan af Suðurnesjum sem koma úr íþróttafélaginu NES.
Þessir keppendur eru: Jakob Gunnar Bergsson, Jósef Daníelsson, Konráð Ólafur Eysteinsson, Sigurður Guðmundsson og Ragnar Ólafsson en þeir munu allir keppa í fótbolta, Vilhjálmur Jónsson mun keppa í Boccia, Ástrós María Bjarnadóttir í sundi, Bryndís Brynjólfsdóttir í frjálsum og svo mun Bjarki Guðnason keppa með systur sinni Heiðu Guðnadóttur í Unified golfi. Þess má einnig geta að einn þjálfari úr röðum Ness var einnig valinn að fara út með hópnum en það er Birkir Þór Karlsson.
Hópurinn heldur utan næstkomandi þriðjudag og mun byrja ferðina á því að kíkja í vinabæinn Ontario og dvelja þar í góðu yfirlæti fyrstu dagana. Setning leikanna verður svo 25.júlí í Los Angeles og er áætlað að þetta verði stærsti íþróttaviðburður í heimi árið 2105. Keppendur á leikunum verða alls 7000 auk þjálfara og aðstoðafólks, segir í tilkynningu frá Nesi.