Steinar Jóhannsson, Ingibjörg Jóna Kristinsdóttir, Íris Dröfn Halldórsdóttir og Heba Friðriksdóttir tóku við verðlaununum fyrir hönd starfsfólks Myllubakkaskóla.
Tómstundaklúbbur Myllubakkaskóla hlaut Hvatningarverðlaun fræðsluráðs Reykjanesbæjar árið 2018. Það voru þau Íris Dröfn Halldórsdóttir, Ingibjörg Jóna Kristinsdóttir, Heba Friðriksdóttir og Steinar Jóhannsson sem tóku við verðlaununum fyrir hönd starfsfólks Myllubakkaskóla.
Um verkefnið segir í tilnefningu: „Tómstundaklúbbur Myllubakkaskóla er fyrir alla nemendur skólans. Haldnir eru fjölbreyttir viðburðir í hverri viku fyrir nemendur. Starfsmenn skólans sjá um þennan klúbb og er hann nemendum að kostnaðarlausu. Aldeilis frábært framtak og skapandi og fjölbreytt starf sem vonandi heldur áfram."
Einnig hlutu sérstaka viðurkenningu starfsfólk Háaleitisskóla fyrir verkefnið Fjölmenningarhátíð í Háaleitisskóla og stjórnendur og kennarar á unglingastigi í Akurskóla fyrir verkefnið Vinnustundir fyrir unglingastig.
Hvatningarverðlaun fræðsluráðs Reykjanesbæjar hafa verið veitt um árabil til kennara, kennarahóps eða starfsmanna í leik- og grunnskólum og tónlistarskóla bæjarins.
Auglýst er eftir tilnefningum frá bæjarbúum og bárust 16 tilnefningar í ár um mörg áhugaverð verkefni.