Styrktaraðilar og aðstandendur Ljósanæturhátíðar í saumastofu pokastöðvarinnar „Saumað fyrir umhverfið“ í morgun.
Ljósanótt verður haldin í 20. sinn dagana 4. til 8. september. Hátíðin mun þó spanna sex daga þar sem tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hljómahöll 3. september er upptaktur að Ljósanótt. Sem fyrr væri ekki hægt að halda ljósanæturhátíð án þeirra fjölmörgu styrktaraðila sem að henni koma og bæjarbúa sem halda dagskrá uppi að stærstum hluta. Í morgun var skrifað undir samninga við stærstu styrktaraðila.
Ljósanótt í Reykjanesbæ var fyrst haldin árið 2000 og er því stór afmæli í ár. Þetta byrjaði allt með einum degi en nú nær hátíðin orðið yfir í tæpa viku. Valgerður Guðmundsdóttir menningarfulltrúi segir að þessi skemmtilega þróun hafi ekki síst orðið til vegna þátttöku íbúanna sjálfra. „Þeir hafa breyst frá því að hafa verið í hlutverki neytenda í það að verða sífellt meira í hlutverki framkvæmdaaðila. Menningar- og fjölskylduhátíðin Ljósanótt í Reykjanesbæ hefur nefnilega breyst á þessum 20 árum í þá átt að verða sífellt meiri svokölluð þátttökuhátíð. Bæjarbúar hafa orðið virkari í því að skapa þá hátíð sem þeir vilja halda með því að standa sjálfir fyrir ýmis konar viðburðum og við það eykst gildi hennar til muna.“
Valgerður segir sömu sögu er að segja af styrktaraðilum hátíðarinnar sem standa þétt við bakið á henni. „Nýir aðilar bætast í hópinn í ár með myndarlegum hætti, fullir meðvitundar um það að jákvæð ímynd bæjarins skipti máli fyrir fyrirtækin sem í bænum starfa. Einnig að jákvæð ímynd hafi sem dæmi áhrif á aðgang þeirra að góðu vinnuafli á þann hátt að hingað vilji flytja og starfa öflugt fólk. Þannig sé það sameiginlegt verkefni bæjarins og fyrirtækja sem þar starfa að styðja við jákvæð verkefni og jákvæða ímyndarsköpun á svæðinu.“
Áherslan í ár
Hátíðin í ár er sérstaklega kynnt sem „Plastlaus Ljósanótt“ og er það liður í umhverfisátaki Reykjanesbæjar. Settar verða upp flokkunar ruslatunnur á hátíðarsvæðinu og íbúar keppast nú við að sauma margnota poka í pokastöð Bókasafnsins „Saumað fyrir umhverfið“ til að nota í verslunum í bæjarfélaginu. Vonast er til að sem flestir taki tillit til þessa átaks. Í ár er sjónum okkar líka beint sérstaklega að erlendum íbúum bæjarins en nú er staðan þannig að u.þ.b. fjórðungur bæjarbúa er af erlendum uppruna og þar af flestir frá Póllandi. Listasafn Reykjanesbæjar hefur af því tilefni sett upp stóra sýningu á úrvali af pólskum grafíkverkum og tónlistarmenn frá Póllandi taka þátt í dagskránni.
Sex daga hátíðarhöld
Í tilefni 25 ára afmælis Reykjanesbæjar er íbúum nú boðið á ókeypis sinfóníutónleika í Stapanum á þriðjudagskvöldinu þannig að hátíðin mun nú spanna sex daga. Sú breyting varð í fyrra að formleg setning hátíðarinnar færðist af fimmtudegi og yfir á miðvikudag, þar sem öll grunn- og leikskólabörn bæjarins koma saman ásamt foreldrum og öðrum gestum í skrúðgarðinum í Keflavík og syngja inn hátíðina. Verslanir í bænum bjóða upp á alls kyns tilboð og viðburði á miðvikudagskvöldinu og þá er líka frumsýning á tónlistarviðburðinum „Manstu eftir Eydísi“ í Stapa.
Opnun fjögurra nýrra sýninga í Listasafni Reykjanesbæjar á eftirmiðdegi fimmtudags markar upphaf sýningahalds Ljósanætur sem hefur verið eitt af aðalsmerkjum hátíðarinnar en á fimmta tug list- og handverkssýninga hafa verið skráðar til leiks. Þessi dagur er orðinn nokkuð stór, ekki síst hjá heimafólki, og má sjá alls kyns hópa, svo sem saumaklúbba og vinnustaði gera sér glaðan dag á þessum degi. Sýningar eru þræddar og verslanir kannaðar en þess má geta að verslanir og veitingahús eru með góð tilboð í gangi alla helgina.
Á föstudegi ber hæst Götupartý og kjötsúpa fyrir alla á Hafnargötunni. Þar kom a fram ýmsir tónlistarmenn og höfðað er til allra. Þá er löngu orðið uppselt á Heimatónleikana sem haldnir eru í gamla bænum í fimmta sinn en þeir eru einmitt dæmi um verkefni sem íbúar sjálfir standa fyrir og hefur slegið rækilega í gegn. Allir miðar seldust upp á nokkrum mínútum.
Laugardagur á Ljósanótt
Engum ætti að leiðast á laugardegi Ljósanætur sem er aðal dagur hátíðarinnar en standandi dagskrá er frá morgni til kvölds. Aðalsmerki Ljósanætur er Árgangagangan sem er einstök á landsvísu, þar sem árgangarnir hittast á Hafnargötu og ganga í skrúðgöngu niður á hátíðarsvæði og safnast þar saman fyrir framan aðalsvið hátíðarinnar. Síðan taka við hinir ýmsu viðburðir, tónleikar, sýningar, barnadagskrá o.fl. Íbúar fara síðan flestir hverjir heim til að borða og eru súpuboð haldin í öðru hverju húsi fyrir vini og ættingja. Stórtónleikar Ljósanætur eru svo hápunktur hátíðarhaldanna og þar koma fram Stuðlabandið og með því koma fram Salka Sól, Jóhanna Guðrún, Jón Jósep Snæbjörnsson og Sverrir Bergmann. Einnig koma fram á sviðinu Herra Hnetusmjör og Emmsjé Gauti og Aron Can. Auðvitað er kvöldið toppað með stórglæsilegri flugeldasýningu og að henni lokinni eru ljósin á Berginu kveikt, en af þeim dregur hátíðin einmitt nafn sitt. Ljósin loga svo fram á vor og varpa hlýlegri birtu yfir Stakksfjörðinn á sama tíma og skammdegið bankar upp á.
Á sunnudegi eru allar sýningar enn opnar ásamt leiktækjum og sölutjöldum og þá getur fólk komist yfir það sem það átti eftir. Þá eru einnig viðburðir í Höfnum á vegum Menningarfélagsins þar m.a. tónleikar með Jónasi Sig og Elízu Newman í Kirkjuvogskirkju.
Viðburðir á vef Ljósanætur
Upplýsingar um alla dagskrá og einstaka viðburði er að finna á ljosanott.is. Þar er nú að finna 150 viðburði, list- og handverkssýningar, tónlistarviðburði, íþróttaviðburði og alls kyns lífsstílsviðburði og sífellt bætist við fjölbreytta flóruna.
Gleðilega Ljósanæturhátíð!