Umhverfisuppgjör Reykjanesbæjar 2020

Reykjanesbær hefur mælt kolefnisspor sitt í gegnum Klappir, grænar lausnir frá árinu 2019. Tilgangurinn er að sjá hver kolefnislosun á vegum sveitarfélagsins er til þess að geta gripið til aðgerða og markvisst dregið úr þeirri losun. Það sem af er ári hefur aukin áhersla verið lögð á að ná enn betur utan um losunina í umföngum 1,2 og 3.

Í lok árs 2019 samþykkti bæjarstjórn Reykjanesbæjar heildarstefnu fyrir sveitarfélagið sem tekur mið af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Stefnan setur tóninn fyrir vegferð sveitarfélagsins til næstu 10 ára. Vistvænt samfélag er ein af sex stefnuáherslum og henni fylgja Heimsmarkmiðin um aðgerðir í loftlagsmálum, sjálfbærar borgir og ábyrga neyslu og framleiðslu.

Í kjölfarið var svo samþykkt umhverfis- og loftslagsstefna fyrir sveitarfélagið þar sem sett voru fram metnaðarfull markmið í umhverfis- og loftslagsmálum. Einnig hefur Reykjanesbær skrifað undir viljayfirlýsingu um hröðun hringrásarhagkerfisins sem m.a. felur í sér skuldbindingu um að vinna ötullega að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi sveitarfélagsins.

Hlekkurinn hér fyrir neðan inniheldur umhverfisuppgjör Reykjanesbæjar fyrir árið 2020 en mikil áhersla hefur nú verið lögð á málaflokkinn með það að markmiði að lækka kolefnisspor sveitarfélagsins. Bæjarbúar eru einnig hvattir til þess að huga að þessum málaflokki í sínu nánasta umhverfi og kynna sér með hvaða hætti þeir geta lækkað kolefnisspor sitt.

Umhverfisuppgjör