Í dag voru undirritaðir styrktarsamningar við helstu bakhjarla Ljósanætur en hátíðin verður haldin í 22. sinn dagana 31.ágúst - 3. september.
Yfir sextíu fyrirtæki styrkja Ljósanótt í ár með fjárhagslegum stuðningi og/eða öðru framlagi. Það er ljóst að án aðkomu þeirra væri Ljósanótt ekki haldin með jafn kröftugum hætti og raunin er. Helstu bakhjarlar Ljósanætur eru sterkir aðilar úr atvinnulífi svæðisins og sagði Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri við undirritun samninganna það vera ómetanlegt þegar fyrirtæki á svæðinu láti sig samfélagið varða enda mikill fjöldi íbúa sem starfi hjá þeim. Hann sagðist sannfærður um að sýnilegur stuðningur fyrirtækjanna auki traust starfsfólks til atvinnurekenda sinna og sagði það ánægjulegt þegar allir leggi sitt á vogarskálarnar til að vel megi takast til.
Aðalstyrktaraðilar Ljósanætur 2023 eru Landsbankinn, Isavia, Icelandair, Skólamatur, BUS4U, Bakað og WIZ. Með stuðningi sínum taka fyrirtækin þátt í því að auðga bæjarlífið og styrkja um leið þá þætti sem eru órjúfanlegur hluti þess að skapa starfsmönnum sínum og viðskiptavinum eftirsóknarvert umhverfi til að lifa og starfa í.
Samhliða undirritunum kynnti Guðlaug María Lewis, menningarfulltrúi og verkefnastjóri hátíðarinnar, dagskrá Ljósanætur þar sem kennir ýmissa grasa. Alla dagskrá hátíðarinnar er að finna á vefnum Ljósanótt.is og þar má einnig sjá yfirlit yfir alla styrktaraðila hátíðarinnar.
Ljósanótt er menningar- og fjölskylduhátíð og dregur nafn sitt af lýsingu á sjávarhömrum „Bergsins“ sem blasir við af hátíðarsvæðinu. Lýsingin eða ljósaverkið var unnið eftir hugmynd Steinþórs Jónssonar fyrsta formanns Ljósanæturnefndar, og afhjúpað á fyrstu Ljósanóttinni árið 2000. Allar götur síðan hefur verið kveikt á ljósunum þegar hátíðin nær hápunkti sínum með stórtónleikum og flugeldasýningu á laugardagskvöldi Ljósanætur.
Á Ljósanótt er lögð áhersla á fjölbreyttar uppákomur frá fimmtudegi til sunnudags. Menningaráhersla hefur verið aðalsmerki hátíðarinnar frá upphafi og hafa tónlist og myndlist jafnan verið þar í fararbroddi enda bærinn annálaður tónlistarbær.