Regnbogaraddir Keflavíkurkirkju.
Reykjanesbær fagnaði góðum árangri Allir með! verkefnisins með helstu aðstandendum verkefnisins fimmtudaginn 18. mars 2021. Það er ekki merki um að verkefnið sé að klárast heldur öllu heldur merki þess að verið sé að blása byr undir báða vængi þeirra sem leiða verkefnið áfram og þakka fyrir það sem gert hefur verið fram til þessa.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra styrkti verkefnið í upphafi og gaf Reykjanesbæ með því tækifæri til þess að hanna, þróa og innleiða eitt stærsta forvarnarverkefni sem farið hefur af stað í einu sveitarfélagi. Fyrir það er Reykjanesbær afar þakklátur.
Allir með! snýr að markvissri styrkingu allra þeirra sem starfa með börnum í sveitarfélaginu með þeim hætti að alltaf sé unnið að jákvæðum samskiptum barna og sterkri félagsfærni þeirra. Lykillinn að vellíðan snýr að virkri þátttöku þeirra í skipulögðu starfi og því að þau tilheyri þeim hópum þar sem þau eru þátttakendur. Alls staðar séu fullorðnir sterkir leiðtogar sem vinna að samfélagsheild þeirra hópa sem þeir bera ábyrgð á. Kvan er einn af helstu samstarfsaðilum Reykjanesbæjar í verkefninu en það hefur sérhæft sig í þjálfun, fræðslu og menntun út frá vellíðan og vináttu. Kvan sinnir allri þjálfun og menntun verkefnisins.
Ungmennafélögin tvö sem eru starfandi í Reykjanesbæ, Njarðvík og Keflavík, spila stóran þátt í verkefninu. Þau hafa unnið að fyrirmyndarkynningarefni um allt barnastarf í sveitarfélaginu í samvinnu við markaðsfyrirtækið Alpha Agency. Kynningarmyndbönd um allt íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarf í sveitarfélaginu ættu ekki að hafa farið fram hjá neinum og eru frekari kynningar fyrirhugaðar. Margir hafa fengið fræðslu á vegum verkefnisins og eru enn fleiri fræðsluerindi í farvatninu fyrir haustið. Búið er að vinna ýmsa tölfræðivinnu um nýtingu styrkja tengdum barnastarfi, þátttöku barna og kostnaði við þátttökuna. Frekari mælingar á verkefninu eru jafnframt fyrirhugaðar. Ungmennafélag Íslands er jafnframt hluti af verkefninu og kostar nú þjálfun, fræðslu og menntun til allra þjálfara innan aðildarfélaganna í tengslum við verkefnið.
Allir með! snýr að jöfnum tækifærum barna til þess að taka þátt í samfélaginu og því að allir beri ábyrgð á því að allir hafi þessi jöfnu tækifæri. Að því sögðu hvetur Reykjanesbær og aðstandendur Allir með! verkefnisins alla bæjarbúa til þess að skrá sig á Allir með! sáttmálann og lýsa þannig vilja sínum til þess að huga að öllum þeim börnum sem í kringum okkur eru, vellíðan þeirra og félagslegri þátttöku. Stuðlum að jákvæðum og sterkri félagsfærni. Allir með!
Helstu aðstandendum Allir með! verkefnisins.
Regnbogaraddir Keflavíkurkirkju söng fyrir gesti.
Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, verkefnastjóri fjölmenningarmála, fór yfir Allir með! verkefnið.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, ávarpaði samkomuna.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, sagði vel valin orð.
Valdimar Guðmundsson og Ásgeir Aðalsteinsson tóku nokkur vel valin lög.