Sonur Valgerðar, Ingvar Hjálmarsson, tók á móti Súlunni í fjarveru móður sinnar. Hér er hann með verðlaunin og viðurkenningarskjalið. Ljósmynd Víkurfréttir
Afhending Súlunnar, menningarverðlauna Reykjanesbæjar fyrir árið 2019 fór fram við hátíðlega athöfn í Duus Safnahúsum nú síðdegis. Að þessu sinni hlaut verðlaunin Valgerður Guðmundsdóttir fyrrum menningarfulltrúi Reykjanesbæjar fyrir framlag sitt til eflingar og uppbyggingar menningarlífs í bænum. Verðlaunagripurinn er silfursúla eftir listakonuna Elísabet Ásberg. Verðlaunin eru veitt þeim sem stutt hafa vel við menningarlíf sveitarfélagsins og var þetta í tuttugasta og þriðja sinn sem Súlan var afhent.
Valgerður Guðmundsdóttir er fædd í Reykjavík 3. júní 1955. Hún er alin upp í Hafnarfirði og gekk þar í Öldutúnsskóla en tók síðan landspróf frá Kvennaskólanum í Reykjavík og svo stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík. Hún las bókmenntir við Háskóla Íslands og lauk síðan B.Ed prófi frá Kennaraháskóla Íslands. Valgerður flutti til Keflavíkur 1985 og hóf íslenskukennslu við Gagnfræðaskóla Keflavíkur sem síðar fékk nafnið Holtaskóli. Þar kenndi hún í nokkur ár og var m.a. fagstjóri í íslensku og árgangastjóri. Árið 1994 tók Valgerður að sér það hlutverk að stofna og stýra nýju eftirskólaúrræði í grunnskólum Keflavíkur sem kallaðist Skólasel. Hún stýrði Skólaselinu við góðan orðstír í fjögur ár en fór þá aftur í íslenskukennslu m.a. í Fjölbrautskóla Suðurnesja. Valgerður Guðmundsdóttir er gift Hjálmari Árnasyni fyrrverandi alþingismanni og skólameistara og eiga þau fimm börn, 13 barnabörn og eitt barnabarnabarn.
Fyrsti og eini menningarfulltrúi Reykjanesbæjar
Árið 2000 auglýsti Reykjanesbær nýja stöðu í bæjarfélaginu; menningarfulltrúa Reykjanesbæjar. Valgerður var ráðin og tók á næstu árum þátt í miklu uppbyggingarstarfi innan menningargeirans. Bókasafn og Byggðasafn höfðu verið rekin í bænum í fjölda ára en nú bættist við formlegt Listasafn ásamt því að menningarhús bæjarins spruttu upp eitt af öðru: Víkingaheimar, Hljómahöll og Duus Safnahús. Bæði var um að ræða nýbyggingar eins og Víkingaheima, endurgerð gamalla húsa eins og Duus Safnahús og svo blanda af hvoru tveggja eins og Hljómahöllin. Fyrsta formlega menningarstefnan var unnin og þjónustusamningar gerðir við menningarhópana í bænum sem eitt árið voru rúmlega tuttugu talsins.
Lengi framan af voru flestir þeir sem unnu að menningarmálum bæjarins í hópi áhugafólks en með árunum fjölgaði þó formlegum starfsmönnum innan greinarinnar og mátti greina það í sífellt fjölbreyttara menningarlífi. Valgerður sagði starfi sínu lausu í sumar og haft var eftir henni við það tækifæri að hennar gæfa í starfi hafi veri sú að vera alltaf með besta fólkið í kringum sig og átti þá við bæði yfirmenn og samstarfsmenn.
Bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Kjartan Már Kjartansson afhenti verðlaunin og þakkaði Valgerði hennar kraftmiklu og óeigingjörnu störf í þágu bæjarfélagsins sem hefðu átt stóran þátt í því að festa Reykjanesbæ í sessi, ekki aðeins sem vöggu popptónlistar sem hann hefur lengstum verið þekktur fyrir, heldur einnig sem menningarbæ meðal annars með stofnun Listasafns, uppbyggingu Duushúsanna, Hljómahallar og bæjar- og menningarhátíðinni Ljósanótt sem Valgerður hefur stýrt styrkri hendi. Hann sagði bæjarstjórn og menningarráð vilja þakka henni fyrir áralanga vinnu og uppbyggingu menningarlífs bæjarins með því að veita henni Súluna, menningarverðlaun Reykjanesbæjar fyrir árið 2019. Valgerður lét nýverið af störfum.
Styrkþegum Ljósanætur þakkað
Við sama tækifæri var styrktar- og stuðningsaðilum Ljósanætur, menningar- og fjölskylduhátíðar Reykjanesbæjar, sem nú var haldin í tuttugasta sinn, þakkaður stuðningurinn. Fram kom í máli Kjartans Más að nýleg rannsókn um Ljósanótt sýndi að hátíðin væri afar jákvætt afl í „lífi“ Reykjanesbæjar, hún skapi samkennd meðal íbúa auk þess sem þeir telji hana mjög jákvæða fyrir ímynd bæjarins. Um leið sagði hann ljóst að ekki væri hægt að halda hátíðina í þessari glæsilegu mynd án framlags ýmissa hópa og félagasamtaka og fjárhagslegs stuðnings fjölmargra fyrirtækja. Saman gerði þetta það að verkum að Ljósanótt væri í hópi helstu menningarhátíða landsins. Helstu styrktaraðilar Ljósanætur í ár, bæði fjárhagslegir og þeir sem studdu við hátíðina með öðru móti, voru 80 talsins og þeir stærstu voru Isavia, Landsbankinn, Lagardére, Securitas, Nettó og Skólamatur og voru þeim öllum færðar bestu þakkir.
Þrjár nýjar sýningar opnaðar í sölum Duus Safnahúsa
Þrjár nýjar sýningar voru opnaðar í Duus safnahúsum í dag. Ágústmyndir Septembermanna, myndir úr safni Braga Guðlaugssonar, sýning Elvu Hreiðarsdóttur, FÖR, sýningin PERSÓNULEGAR SÖGUR, ljósmyndir og vídeóverk unnin af listakonunni Venu Naskrecka og Adam Calicki í tilefni pólskrar menningarhátíðar í Reykjanesbæ og skemmtileg verk eftir Jönu Birtu Björnsdóttur sem ætlað er að vekja athygli á fjölbreytileikanum í mannlegu samfélagi með því að sýna notkun hjálpartækja í jákvæðu samhengi. Sýningarnar eru opnar til 12. janúar 2020.