Vegna umfjöllunar í síðasta tölublaði Stundarinnar um vatnsgæði í Reykjanesbæ er rétt að eftirfarandi komi fram.
Umfjöllun blaðsins byggir að mestu á staðreyndum úr fortíðinni, þegar Varnarliðið ríkti á Ásbrú. Þá bárust fréttir af því að mælingar hersins sýndu blýinnihald í neysluvatni í einhverjum byggingum, en slíkt hefur aldrei fengist opinberlega staðfest. Ljóst er að hafi þetta verið rétt, hafi skýringanna verið að leita í innanhúslögnum þeirra bygginga, enda hafa mælingar ætíð sýnt að gæði vatns í vatnsbólum byggðarlagsins sé í góðu lagi. Eftir að varnarliðið yfirgaf svæðið voru tekin vatnssýni á nokkrum stöðum og komu þau sýni öll vel út. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hvatti þó Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar að fylgjast með vatnslögnum í húsum á Ásbrú þar sem meira blýmagn mældist þar vegna lagna, þó það væri vel innan allra heilbrigðismarka. Reglulegar mælingar síðustu ár hafa ætíð sýnt sömu niðurstöðu; að vatnsgæði séu mjög góð í vatnsbóli og í dreifikerfinu.
Mælingar Heilbrigðiseftirlitsins eru samkvæmt viðurkenndum og alþjóðlegum stöðlum sem byggja á mælingum á upprunastað og dreifingarkerfi en Stundin notast við þá aðferð að mæla vatn sem staðið hefur óhreyft í sólarhring og því geta þær niðurstöður sýnt annað. Meðal annars þar sem þá mælist einungis það vatn sem liggur í blöndunartækjunum sjálfum sem og lögnum einstakra húsa, en léleg eða gömul blöndunartæki og gamlar lagnir einstakra húsa hafa að sjálfsögðu áhrif á slíkt. Langflestir láta vatn renna áður en þess er neytt og því er talið skynsamlegra að mæla slíkt vatn. Gæði einstakra lagna í húsum eru á ábyrgð húseigenda, en þau geta verið jafn mismunandi og húsin eru mörg. Því er rétt að beina þeirri ábendingu til húseigenda sem eru í vafa um vatnsgæði úr sínum krönum, að kanna lagnir húsa. Fólk getur haft samband við Heilbrigðiseftirlitið fyrir frekari aðstoð og upplýsingar.
Bent hefur verið á að bæjaryfirvöld hafi ákveðið að skipta um neysluvatnslagnir í Háaleitisskóla og hafa einhverjir tengt það við umfjöllun Stundarinnar. Rétt er að það komi skýrt fram að til hefur staðið að skipta um þær lagnir, þær framkvæmdir voru einungis færðar framar í röðinni til að slá alla varnagla.
Samandregið má því segja að vatnsgæði í sveitarfélaginu eru mjög mikil og raunar eins og best verður á kosið. Allar niðurstöður sýna að innihald aukaefna á borð við blý eru afar langt innan allra gilda heilbrigðiseftirlits á Íslandi og í allri Evrópu. Lagnir í húsum, sem og blöndunartæki, geta hins vegar haft sín áhrif, en þau eru á ábyrgð húseigenda og þeir því hvattir til að kanna sín mál komi upp einhverjar efasemdir um stöðu þessara mála í einstökum húsum.