Á vefsíðu Viðskiptablaðsins www.vb.is var greint frá því í gær, miðvikudaginn 25. febrúar 2016, að unnið væri að úttekt á fjármálum Reykjanesbæjar sem birtast myndi í dag, fimmtudaginn 26. febrúar. Jafnframt var þess getið að Reykjanesbær hefði ekki getað afhent gamla ársreikninga frá 1994-2002 þar sem þeir fyndust ekki í skjalasafninu. Um þetta hafa svo spunnist umræður á samfélagsmiðlum. Þess vegna tel ég rétt að upplýsa hvernig málið er vaxið frá sjónarhóli Reykjanesbæjar.
Ársreikningar á umræddu tímabili voru ekki geymdir á rafrænu formi, eins og gert er í dag, heldur í pappírsformi. Skjalaskráning og utanumhald á þessum tíma var í ákveðnu tölvukerfi sem síðan hefur verið endurnýjað og fyrra kerfi aflagt. Fyrir nokkrum árum var gerð leit að umræddum ársreikningum í skjalasafni Reykjanesbæjar en fundust ekki. Það voru svörin sem Viðskiptablaðið fékk frá fjármálasviðinu. Þessi samskipti Viðskiptablaðsins við starfsmenn sveitarfélagsins voru mér ekki kunn fyrr en ég las frétt Viðskiptablaðsins í gærkvöldi og sendi undirritaður þá svohljóðandi afsökunarbeiðni til blaðsins, sem reyndar hvorki hefur verið móttekin né svarað:
„Til ritstjórnar Viðskiptablaðsins
Undirrituðum var ekki kunnugt um þá ósk Viðskiptablaðsins að fá afrit af 15-20 ára gömlum ársreikningum Reykjanesbæjar. Þó reikningarnir hafi ekki fundist í núverandi skjalakerfi sveitarfélagsins hefði mátt ætla að endurskoðunarfyrirtæki sveitarfélagsins ætti afrit í sínum fórum. Það hefði amk. verið rökrétt að kanna það. Það var ekki gert og biðst ég afsökunar á því.
Í kjölfar fréttarinnar í dag var send inn fyrirspurn til endurskoðenda og hafa þeir staðfest að eiga eintök af eldri reikningum en því miður ekki á rafrænum formi. Því þarf að fjölfalda ársreikningana og þegar því er lokið munum við senda ykkur eintök.“
Kjartan Már Kjartansson,
bæjarstjóri Reykjanesbæjar