Frá vel heppnuðu Nettómóti
Alls tóku 1020 börn þátt í 20. ára afmælismóti Nettó sem fram fór í Reykjanesbæ um liðna helgi.
Mikil ánægða var með skipulagningu og framkvæmd mótsins en að henni standa unglingaráð körfuknattleiksdeilda Keflavíkur og Njarðvíkur auk fjölda sjálfboðaliða, aðallega foreldra.
Mótshaldarar vilja þakka öllum þátttakendum, foreldrum og forráðamönnum fyrir frábæra frammistöðu um helgina. Einnig vilja þeir færa öllum félagsmönnum sem lögðu hönd á plóginn við þrotlausa vinnu um helgina bestu þakkir fyrir óeigingjarnt framlag. Síðast en ekki síst fá öll þau fyrirtæki og stofnanir sem lagt hafa mótinu lið bestu þakkir og þá sérstaklega Samkaup sem er rekstraraðili Nettóverslananna og Reykjanesbæ sem studdi dyggilega við mótið.
Íþrótta- og tómstundasviði hefur borist skemmtilegt bréf frá formanni KKÍ og foreldri sem þakkar fyrir vel heppnað mót sem sé orðið hið fjölmennasta á Íslandi í íþróttum.
Með bréfi þessu langar mig að þakka ykkur fyrir glæslegt Nettómót sem fram fór í Reykjanesbæ um nýliðna helgi.
Ég var svo heppinn að vera á mótinu alla helgina þar sem guttinn minn var einn af þátttakendum og fékk því að upplifa alla stemminguna, gleðina og skipulagningu mótsins í gegnum hann og hans liðsfélaga, einnig kom fjöldinn allur af einstaklingum til mín til að ræða við mig um þetta frábæra mót.
Ég tel að þarna hafi farið fram fjölmennasta körfuknattleiksmót fyrr og síðar þar sem 1022 iðkendur voru að keppa og fullyrði ég að Nettomótið sé orðið eitt fjölmennasta mót sem fram fer hér landi í íþróttum.
Öll skipulagning var hin besta og var mjög gaman að fylgjast með öllum þeim fjölmörgu sem lögðu hönd á plóg við að gera þetta mót eins glæsilegt og það varð.
Njarðvíkingar og Keflvíkingar eiga miklar þakkir skildar fyrir hreint út sagt magnaða vinnu og flotta skipulagingu, það má segja að mig vanti nógu sterk lýsingarorð til að lýsa ánægju minni með ykkar stórkostlega framlag.
Jafnframt vona ég íbúar Reykjanesbæjar séu stoltir af sínu fólki sem starfar innan körfuboltans í bænum því þessi helgi var svo sannarlega góð auglýsing fyrir Reykjanesbæ sem og var þetta frábær auglýsing fyrir körfuboltann í heild sinni.
Það var stoltur faðir og formaður KKÍ sem fylgdist með lokaatriðinu.