Vel heppnaður afmælisdagur!

Í tilefni af 30 ára afmæli Reykjanesbæjar þann 11. júní 2024 var boðið upp á stór-skemmtilega hátíðardagskrá, þar sem íbúar og gestir fengu að njóta fjölbreyttra viðburða sem lituðu mannlífið í bænum.

Dagurinn hófst á notarlegum nótum með tónleikum með Kósýbandinu á Nesvöllum. Þar var boðið upp á dýrindis rjómatertu sem naut mikilla vinsælda meðal viðstaddra. Kósýbandið heimsótti einnig og spilaði fyrir íbúa á Hlévang og á sjúkrahúsinu.

Í Stapa var síðan frumsýning á afmælismyndbandi sem varpaði ljósi á eftirminnileg augnablik úr sögunni og þá uppbyggingu og þróun sem hefur átt sér stað frá sameiningu Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna.

Í kjölfar myndbandsins var hátíðarfundur bæjarstjórnar. Á fundinum, sem fór fram í Stapa, voru nýir heiðursborgarar útnefndir við hátíðlega athöfn. Sólveig Þórðardóttir var útnefnd fyrir mikilvægt framlag til fæðingaþjónustu og framfara samfélagsins. Einnig var Albert Albertsson útnefndur fyrir mikilvægt framlag til sjálfbærni og uppbyggingar samfélagsins.

Afmælisdagurinn náði hápunkti sínum með stórkostlegum tónleikum á þaki Hljómahallar þar sem fjölmargir íbúar mæltu sér mót við fjölskyldu og vini og áttu skemmtilegt kvöld saman. Hljómsveitin Albatross steig á svið ásamt Röggu Gísla, Friðriki Dór og Jóhönnu Guðrúnu. Matarvagnar voru á svæðinu sem sköpuðu skemmtilega stemningu og tónleikagestir gæddu sér á fjölbreyttum kræsingum.

Reykjanesbær mun halda áfram að fagna þessum merka áfanga fram til 17. júní með fjölbreyttum viðburðum á borð við opnun listasýninga, tónleikum og litahlaupi svo eitthvað sé nefnt. Við hvetjum alla íbúa til að taka þátt og vera með í veislunni!