Vel heppnuð menningarhátíð

Fjölmenningarhátíðin Menningarheimar mætast var haldin í annað sinn í Reykjanesbæ þann 1. júní síðastliðinn.

Fjölbreyttur hópur íbúa með ólíkan bakgrunn sameinaðist í þeim tilgangi að fagna fjölbreytileikanum saman. Í boði var ljúffengt matarsmakk frá hinum ýmsu heimshornum en 12 fjölskyldur höfðu eldað mat sem boðið var upp á. Hoppukastali var á svæðinu, hægt var að fá málað á sig henna húðflúr sem hefð er fyrir í mörgum menningarheimum sem eru fjarri þeim íslenska og stigin var sýrlenskur dans fólki til mikillar ánægju og skemmtunar. Mikil gleði ríkti á torginu fyrir framan ráðhúsið.

Gleðin teygði sig inn á bókasafnið þar sem Heimskonur hittust yfir rjúkandi heitum kaffibolla, sumarsýningin “Náttúruupplifun fyrir börn og fjölskyldur” var formlega opnuð, sumarlestrarverkefni var sett af stað, auk þess sem krakkar gátu tekið þátt í krakkakosningum samhliða yfirstandandi forsetakosningum. Boðið var upp á andlitsmálun, jóga og henna tattoo sem virtist heilla unga jafnt sem aldna.

Á hátíðinni gafst tækifæri fyrir bæjarbúa að taka þátt í samsköpun á listaverki fjölbreytileikans sem nú prýðir vegg á bókasafninu. Verkið er fallegt, litríkt og heildstætt sem ber merki fjölbreytileika þeirra listamanna sem að því stóðu.

Hátíðin í ár er hluti af 30 ára afmælishátíð Reykjanesbæjar, enda er yfirskrift sveitarfélagsins Reykjanesbær í krafti fjölbreytileikans.

 

+