Vestnorden ferðakaupstefnan var haldin í Hljómahöll í síðustu viku þar sem ferðaþjónustuaðilar á Íslandi, Færeyjum og Grænlandi kynntu það helsta sem ferðaþjónustan hefur upp á að bjóða. Almenn ánægja ríkti með framkvæmd kaupstefnunnar og eiga starfsmenn Hljómahallar hrós skilið fyrir gott skipulag og fagleg vinnubrögð.
Samkvæmt upplýsingum frá Tómasi Young, framkvæmdastjóra Hljómahallar þá sóttum um 450 gestir ráðstefnuna og það fóru fram í kringum 3.500 viðskiptaviðtöl á milli kaupenda og seljenda. Þess ber að geta að aðeins einu sinni áður hefur Vestnorden verið fjölmennari, en það var árið 2008.
Gisti- og veitingastaðir í Reykjanesbæ voru þétt setnir og fjöldi gesta fór í skoðunarferðir um Reykjanesbæ. Ráðstefnunni lauk svo með hátíðarkvöldverði í Suðurnesjabæ.