Velferðarráð og starfsfólk velferðarsviðs gefur börnum loforð

Velferðarráð og starfsfólk skrifstofu velferðarsviðs hjá Reykjanesbæ svaraði ákalli Barnaheilla og gaf börnum samfélagsins loforð um að huga að velferð þeirra og leggja sitt af mörkum til þess að útrýma kynferðisofbeldi gegn börnum á Íslandi.

Barnaheill stendur fyrir vitundarvakningunni #ÉGLOFA sem er ákall til fullorðinna í samfélaginu.

Langtímamarkmið er að fækka tilvikum þar sem börn verða fyrir kynferðisofbeldi og fjölga í hópi þeirra barna sem segja frá.

Skammtímamarkmið er að auka almenna vitneskju um vandann í samfélaginu og fjölga í hópi þeirra sem láta sig málefnið varða.

Velferðarsvið Reykjanesbæjar lofar að hlusta á börn sem tjá sig um ofbeldi og horfa eftir einkennum ofbeldis eða því sem oft kallast rauðu flöggin. Jafnframt er því lofað að bregðast við frásögnum barna, setja upp hindranir fyrir mögulega gerendur og vinna að réttum viðbrögðum þegar barn segir frá ofbeldi sem og huga að úrræðum fyrir þau og aðstoð.

Velferðarráð Reykjanesbæjar tekur undir orð Barnaheilla um nauðsyn þess að fullorðið fólk þori að horfast í augu við vandann til að geta fækkað þolendum og fjölga þeim börnum sem segja frá þegar og ef þau verða fyrir ofbeldi.

Ráðið og starfsfólk sviðsins lofar að líta ekki undan þegar börn segja frá eða þegar það verður vart við einkenni ofbeldis. Eins mun það tala upphátt um kynferðisofbeldi, fræðast, hlusta, bregðast við, skipta sér af verði það vart við óeðlileg samskipti, sendi skýr skilaboð til barna um að þau fái stuðning ef þau segja frá og tilkynna grun um ofbeldi.

Með þessu litla fingurs loforði til stuðnings baráttunni gegn kynferðisofbeldi er vakin athygli á herferð Barnaheilla og unnið að aukinni meðvitund um málefnið og því að fleiri börn upplifi sig örugg í samfélaginu okkar.

Velferðarþjónustan í Reykjanesbæ skorar á aðrar starfseiningar Reykjanesbæjar og velferðarþjónustu annarra sveitarfélaga til þess að vera með í að mynda skjaldborg um börnin okkar. Hverju lofar þú?

#ÉGLOFA

https://barnaheill.is/eglofa