Velkomin á Barnahátíð í Reykjanesbæ dagana 12. og 13. maí

Frítt á alla viðburði

Barnahátíð í Reykjanesbæ verður sett með formlegum hætti fimmtudaginn 10. maí í Duushúsum þegar sýningin „Sögur og ævintýri“ verður opnuð að viðstöddum elstu börnum allra tíu leikskólanna í bænum. Sýningin er leikskólahluti Listahátíðar barna sem er samstarfsverkefni Listasafns Reykjanesbæjar, allra 10 leikskólanna og allra 6 grunnskólanna í bænum. Leikskólabörnin hafa unnið með sögur og ævintýri stóran hluta úr vetri og afraksturinn, heill ævintýraskógur sem þau hafa skapað, verður til sýnis í Duushúsum ásamt listasmiðju og ýmsu öðru. Sýningar leikskólanna hafa ekki verið neinar venjulegar sýningar og dregið að sér þúsundir gesta ár hvert.

Listaverk í leiðinni

Síðari hluti formlegu setningarinnar verður föstudaginn 11. maí kl. 14:00 þegar grunnskólahluti Listahátíðarinnar, „Listaverk í leiðinni,“ verður opnaður í Nettó. Yfirskriftin vísar til þess að verk grunnskólabarnanna eru sýnd víðs vegar um bæinn í þeim tilgangi að fólk rekist á þau á förnum vegi og fái þannig notið þess frábæra starfs sem unnið er í skólum bæjarins í list- og verkgreinum.  Listaverkin eru líka af öllu tagi og þar má sjá gott yfirlit yfir vinnu vetrarins, margvísleg vinnubrögð og óþrjótandi sköpunargleði barnanna. Þarna var ekki unnið undir einu yfirheiti heldur fékk fjölbreytnin að ráða ferðinni og afraksturinn er ótrúlegur, við sjáum verk frá öllum grunnskólunum frá ýmsum árgöngum.

Eitthvað við allra hæfi

Fjölmargt fleira er þó á dagskrá Barnahátíðar og fer meginþungi þeirrar dagskrár fram helgina 12. og 13. maí. Meðal viðburða má nefna nýjar og flottar sýningar í Víkingaheimum og heimsókn frá „alvöru“ víkingum, opnunarhátíð í landnámsdýragarðinum, fjölskyldusmiðjur þar sem m.a. verður hægt að búa til víkingaklæði á bangsann sinn, búa til skemmtileg vinaarmbönd og lyklakippur, námskeið þar sem kennt verður að tálga og annað þar sem einn fremsti töframaður landsins kennir töfrabrögð, lifandi sögustund með Þór Tulinius, heimboð hjá Skessunni í hellinum þar sem boðið verður upp á lummur, blöðrur og sögustund, krílasund í sérstaklega upphitaðri sundlaug, flotta flaututónleika og ýmislegt fleira.

Dagskrána í heild sinni, með tímasetningum, staðsetningum og nánari upplýsingum má nálgast á vefsíðunni barnahatid.is. Þess skal getið að frítt er á alla viðburði Barnahátíðar. Kaffiveitingar verða seldar alla helgina í Víkingaheimum.

Reykjanesbær býður ykkur velkomin!