Reykjanesbær er eitt af fimm sveitarfélögum sem voru valin til að taka þátt í tilraunaverkefni á vegum Byggðastofnunar sem miðar að því að greina áhrif og afleiðingar loftlagsbreytinga og móta aðgerðir til aðlögunar.
Í byggðaáætlun sem samþykkt var þann 15. júní 2022 var lögð fram aðgerðaáætlun með 44 aðgerðum sem snúa að byggðamálum á Íslandi. Aðgerðaáætluninni er skipt upp í þrjá hluta, A - Jafna aðgengi að þjónustu, B - Jafna tækifæri til atvinnu og C - Stuðla að sjálfbærni byggða um land allt. Ein aðgerðin í hluta C nefnist C.10 – Áhrif loftslagsbreytinga og sveitarfélög, og hefur Reykjanesbær verið valið sem eitt af fimm þátttökusveitarfélögum í þeirri aðgerð.
Aðgerð þessi felur í sér að mótuð verði heildræn nálgun á aðlögun sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga. Horft var til þess að sveitarfélögin sem tækju þátt í verkefninu myndu spanna sem fjölbreyttastan hóp íslenskra sveitarfélaga m.t.t. stærðar, íbúafjölda, staðsetningar, lykilatvinnugreina og loftslagstengdra áskorana.
Skoðuð verða mismunandi viðfangsefni í hverju sveitarfélagi fyrir sig, framkvæmt verður áhættumat, aðlögunaraðgerðir mótaðar og í kjölfarið verður settur upp leiðarvísir um það hvernig bregðast megi við áhrifum loftslagsbreytinga. Viðfangsefnið sem skoðað verður fyrir Reykjanesbæ er ofsaveður og áhrif þess á innviði, atvinnugreinar, efnahag og samfélagið í heild sinni.
Verkefnið er á ábyrgð Umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytisins og er framkvæmt í samstarfi við Byggðastofnun, Veðurstofu Íslands og Skipulagsstofnun.
Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á vef Byggðastofnunar með því að smella hér.