Í Duus Safnahúsum leggjum við af stað inn í haustið með opnun tveggja kraftmikilla sýninga á vegum Byggðasafns Reykjanesbæjar og Listasafns Reykjanesbæjar. Sýningarnar marka upphaf vetrarstarfs húsanna og safnanna og gefa góð fyrirheit um líflegan og viðburðaríkan vetur.
Fullt hús af brúðum hjá Byggðasafninu
Byggðasafnið býður upp á Fullt hús af brúðum á sýningu á merku leikfangasafni Helgu Ingólfsdóttur. Helga hóf söfnun á brúðum fyrir margt löngu og í framhaldinu margskonar leikföngum öðrum sem flestir þekkja úr æsku. Hún færði Byggðasafninu allar brúður sínar að gjöf árið 2007 og heildarsafnið nokkrum árum síðar. Leikfangasafn hennar hefur aldrei áður verið sýnt í heild sinni, en það er líklega það stærsta sinnar tegundar hér á landi.
Helga taldi leikföng mikilvæg í þroska og leikjum barna og án efa mun sýningin vekja upp ótal góðar minningar sýningargesta úr æsku.
Ljóst er að þessi sýning gleður unga sem aldna og býður upp á tilvalið tækifæri til safnaheimsóknar fjölskyldunnar.
Áfallalandslag Listasafnsins
Listasafn Reykjanesbæjar færir okkur sýninguna Áfallalandslag / Landscapes of Trauma: a Reflection on Wonder. Það er óhætt að segja að þetta sé stór sýning bæði í umfangi og efni en sýningin teygir sig í tvo sali Duus Safnahúsa sem er um margt táknrænt fyrir það pláss sem áföll af ýmsum toga hafa tekið í samtímanum á síðustu misserum.
Áfallalandslag er sýning sem ætlað er að tengja áhorfandann við atburðarás áfalla sem tengjast náttúruhamförum. Sýningin er innblásin af grein sem skrifuð er af Sigurjóni Baldri Hafsteinssyni og Arnari Árnasyni, Landscapes of Trauma: a Reflection on Wonder.
Grein þeirra Sigurjóns og Arnars, vakti athygli sýningarstjórans, Helgu Þórsdóttur, þar sem Reykjanesið virðist vera að vakna í jarðfræðilegum skilningi og hafa margir jarðskjálftar mælst hærra en 4 stig á Richter mælikvarða, frá seinni hluta ársins 2020. Þannig kviknaði sú hugmynd að nota tungumál myndlistarinnar til að tjá áfall sem fylgir áverkum og undrum þess, sem verður fyrir hamförum af völdum náttúruafla. Listamennirnir sem taka þátt í sýningunni, Áfallalandsslagi, eru allir þekktir fyrir að vinna með krafta náttúrunnar í eigin myndlistarsköpun.
Listamennirnir sem taka þátt í sýningunni eru Rannveig Jónsdóttir (f.1992), Halldór Ásgeirsson (f. 1956) og Gjörningaklúbburinn sem stofnaður var 1996 og er nú skipaður þeim Eirúnu Sigurðardóttur (f. 1971) og Jóní Jónsdóttur (f.1972).
Sýningarstjóraspjall
Sýningarnar verða opnaðar almenningi föstudaginn 4.september. Helga Þórsdóttir forstöðumaður Listasafnsins og sýningarstjóri býður upp á sýningarstjóraspjall sunnudaginn 6.september kl. 15.
Sýning Byggðasafnsins stendur til 1.nóvember og sýning Listasafnsins til 12.október. Eins og stendur er ókeypis aðgangur í Safnahúsin.