689. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, haldinn í Merkinesi, Hljómahöll, 21. janúar 2025, kl. 17:00
Viðstaddir: Bjarni Páll Tryggvason, Díana Hilmarsdóttir, Guðbergur Reynisson, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir bæjarstjóri, Helga Jóhanna Oddsdóttir, Hjörtur Magnús Guðbjartsson, Jón Már Sverrisson, Margrét A. Sanders, Sigurrós Antonsdóttir, Sverrir Bergmann Magnússon og Valgerður Björk Pálsdóttir. Í forsæti var Bjarni Páll Tryggvason.
Að auki sat fundinn Hrefna Gunnarsdóttir ritari.
Guðný Birna Guðmundsdóttir boðaði forföll, Hjörtur Magnús Guðbjartsson sat fyrir hana.
Margrét Þórarinsdóttir boðaði forföll, Jón Már Sverrisson sat fyrir hana.
1. Fundargerðir bæjarráðs 9. og 16. janúar 2025 (2025010003)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar.
Fundargerðirnar samþykktar 11-0 án umræðu.
Fylgigögn:
Fundargerð 1498. fundar bæjarráðs 9. janúar 2025
Fundargerð 1499. fundar bæjarráðs 16. janúar 2025
2. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 10. janúar 2025 (2025010011)
Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi mál fundargerðarinnar frá 10. janúar til sérstakrar samþykktar.
Fyrsta mál fundargerðarinnar Vatnsnes breyting á aðalskipulagi (2019060056).
Til máls tók Guðbergur Reynisson (D). Bar hann upp bókun með vísun í bókun frá fundargerð bæjarráðs frá 17. ágúst 2024:
„Ekki hefur verið komið með lausnir vegna leikskóla og alls ekki vegna þess aukna umferðarmagns sem bætist við svæðið. 600 íbúðir verða 1250 íbúðir og mv 1,6 bíl á íbúð eru þetta tæplega 2000 bíla aukning.
Umferðar og samgöngumannvirki Reykjanesbæjar eru löngu sprungin. Okkur er svo sagt að lausnin sé að íbúar og gestir bæjarins eigi að nýta sér alla þá fjölbreyttu samgöngumáta sem í boði eru.
Við hvetjum því meirihlutann bæði til að fara að framkvæma eitthvað af þeim samgöngubótum sem endalaust eru ræddar og fara að standa miklu betur með öllum þessum fjölbreyttu samgöngumátum.“
Bókun frá fundargerð bæjarráðs 17. ágúst 2024: Sjálfstæðisflokkurinn ítrekar áhyggjur sínar varðandi það mikla byggingarmagn sem áætlað er á Vatnsnesinu. Áður en ákvörðun um þessa miklu þéttingu byggðar er tekin væri rétt að skoða hvar börn í því hverfi eigi að sækja grunnskóla, hvar leikskóli eigi að byggjast upp, hvernig umferðamálum verði háttað og hvernig aðrir innviðir bera þessa aukningu á svæðinu, svo ekki sé talað um sjónræn áhrif sem þessi fjöldi stórhýsa hefur. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að framangreind mál verði skoðuð vel áður en farið verður af stað í áætlaðar framkvæmdir.
Guðbergur Reynisson, Margrét Sanders og Helga Jóhanna Oddsdóttir Sjálfstæðisflokki.
Fyrsta mál fundargerðarinnar samþykkt 8-0. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks Guðbergur Reynisson, Margrét Sanders og Helga Jóhanna Oddsdóttir sitja hjá.
Annað mál fundargerðarinnar Deiliskipulagstillaga - Vatnsnes - Hrannargata 2-4 (2019100209).
Annað mál fundargerðarinnar samþykkt 7-0. Guðbergur Reynisson, Margrét Sanders og Helga Jóhanna Oddsdóttir bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Jón Már Sverrisson bæjarfulltrúi Umbótar sitja hjá.
Þriðja mál fundargerðarinnar Breyting á aðalskipulagi - Hvammur F3 og Seljuvogur 2a IB33 (2019060056) samþykkt 11-0 án umræðu.
Fjórða mál fundargerðarinnar Heilbrigðisstofnun Suðurnesja - viðbygging (2024100392) samþykkt 11-0 án umræðu.
Fimmta mál fundargerðarinnar Hljómahöll - geymsluhúsnæði (2024110108).
Til máls tók Helga Jóhanna Oddsdóttir (D) og bar upp eftirfarandi bókun:
„Það kemur ekki á óvart að íbúar í nágrenni Hljómahallar skuli mótmæla geymslum á lóð hússins sem þrengt hefðu verulega að opnu svæði á milli húsa og gönguleið. Í skýrslu verkefnisstjóra um flutning bókasafnsins í Hljómahöll var skýrt tekið fram að megin forsenda þess að verkefnið gengi upp, væri bygging geymsluhúsnæðis á lóð Hljómahallar. Húsnæðið er sem sagt ekki nógu stórt til að hýsa bókasafn, tónlistarskóla og rokksafnið (þó rokksafnið verði í mýflugumynd). Megin forsendan er nú brostin og ekki til neitt plan B.
Að eingöngu sé vísað til viðbótarhúsnæðis á lóð sem “Geymsluhúsnæðis” er reyndar beinlínis rangt þar sem ljóst hefur verið frá upphafi að tónlistarskólanum er sniðinn það þröngur stakkur í þessum breytingum að þær “geymslur” sem honum voru ætlaðar á lóð, þyrfti að nýta sem vinnuaðstöðu starfsfólks.
Í Hljómahöll eru hagsmunir þeirra tveggja stofnana sem fyrir voru fótum troðnir, sérstaða þeirra og framtíðarsýn eru ekki tekin með í reikninginn. Við höfum ítrekað rætt Rokksafnið og hlutverk þess við að laða að stórar ráðstefnur, árshátíðir og aðra viðburði.
Styrkur Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og sérkenni hefur um áratuga skeið falist í samspili og öflugu hljómsveitarstarfi, svo eftir er tekið. Hljómahöllin var hönnuð og byggð að hluta í kring um skólann sem tengist hinni sterku tónlistarsögu- og menningu sveitarfélagsins órjúfanlegum böndum. Með þessum breytingum á húsnæðinu missir tónlistarskólinn sjö rými. Þar á meðal eru æfingaaðstaða nemenda, meðal annars þeirra sem ekki búa svo vel að eiga hljóðfæri heima, námsgagnasafn skólans (sem var á teikningum verkefnahópsins ranglega tilgreint sem geymsla, þrátt fyrir ábendingar starfsfólks), og vinnuaðstaða kennara verður hvorki fugl né fiskur.
Innan skólans starfa hátt í 40 kennarar samtímis við kennslu, meiri hluta vikunnar. Það væri forvitnilegt að vita hversu oft sá gestafjöldi mælist samtímis á bókasafninu, sem þó tekur yfir mikið magn fermetra undir allskonar starfsemi sem ekki tengist aðgengi að bókakosti.
Ljóst er að mikillar óánægju gætir á meðal starfsfólks, nemenda, foreldra og fjölda bæjarbúa. Á meðan þjónusta við nemendur tónlistarskólans er skert endurtekur meirihlutinn stöðugt að verið sé að auka þjónustu við bæjarbúa með þessum gjörningi.
Við í Sjálfstæðisflokknum höfum ítrekað bent á að vinna þurfi mun betur að, og undirbúa ákvörðun um flutning stofnana sveitarfélagsins og taka tillit til allra mögulegra kosta í stöðunni. Engir aðrir kostir hafa verið skoðaðir í þessu tilviki og kostnaðaráætlun bæði ónákvæm eins og sjá má á samþykktum viðbótum við fjárhagsáætlun 2024 og án alls samanburðar við aðrar leiðir.
Mikil tímapressa hefur verið á verkefninu. Rökin fyrir henni, sem meirihlutinn hefur meðal annars notað eru þau, að þar sem leggja á núverandi rými bókasafnsins undir bæjarskrifstofur, þurfi að losa það sem fyrst, enda yfirhalning á ráðhúsinu í heild í gangi.
Þær eru fjölmennar raddir íbúa sem spyrja sig og okkur bæjarfulltrúa þeirrar sjálfsögðu spurningar, að fyrst nemendur og starfsfólk leik- og grunnskólanna hefur getað látið sig hafa það að sinna sínum verkefnum í gámahúsum undanfarin misseri, hvers vegna hefur ekki mátt nýta þá lausn fyrir bæjarskrifstofurnar, eða bókasafnið jafnvel, og vinna betur að heildar framtíðarsýn og uppbyggingu menningarhúsnæðis í sveitarfélaginu? Ætlar bókasafnsmeirihlutinn virkilega ekki, að taka eitt skref til baka nú þegar ljóst er að forsendur verkefnisins eru brostnar og engin lausn sjónmáli? Það hlýtur að mega fresta opnun leigumiðlunar með kökuform og aðgengi að saumavélum í Hljómahöll á meðan viðunandi vinnubrögð eru tekin upp.“
Guðbergur Reynisson, Margrét Sanders og Helga Jóhanna Oddsdóttir Sjálfstæðisflokki.
Forseti gerði fundarhlé kl. 17:13.
Fundur aftur settur kl. 17:30.
Til máls tók Bjarni Tryggvason (B) og bar fram eftirfarandi bókun:
„Við höfnum öllum þeim fullyrðingum sem fram koma í bókun Sjálfstæðisflokksins vegna höfnunar umhverfis- og skipulagsráðs á geymsluhúsnæði við Hljómahöll. Forsendur verkefnisins eru ekki brostnar og fyrir liggja tillögur arkitekta um viðbyggingu við húsið til að bregðast við þörf fyrir geymslur og mun sú tillaga fara sína réttu leið í stjórnsýslunni og vera kynnt fyrir stjórnendum þeirra stofnana sem munu starfa í Hljómahöll í vikunni.
Hvað varðar starfsemi Tónlistarskóla Reykjanesbæjar þá er engin fyrirséð skerðing á námsframboði skólans og hefur starfsfólk eignaumsýslunnar fundið lausnir varðandi vinnuaðstöðu starfsfólks í samvinnu við stjórnendur skólans sem rúmast innan veggja Hljómahallar.
Þegar stjórnendur þeirra stofnana sem munu starfa í Hljómahöll skiluðu af sér kostnaðaráætlun var hún tekin til umfjöllunar og afgreiðslu í stjórnsýslu Reykjanesbæjar og engir viðaukar hafa verið samþykktir umfram kostnaðaráætlun.
Okkur þykir miður að bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins geri lítið úr starfsemi stofnana og stjórnsýslueininga sveitarfélagsins á kostnað annarra og teljum þann málflutning ekki boðlegan.“
Bjarni Páll Tryggvason, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Díana Hilmarsdóttir bæjarfulltrúar Framsóknarflokks, Sverrir Bergmann Magnússon, Sigurrós Antonsdóttir, Hjörtur Magnús Guðbjartsson bæjarfulltrúar Samfylkingar, Valgerður Björk Pálsdóttir bæjarfulltrúi Beinnar leiðar og Jón Már Sverrisson bæjarfulltrúi Umbótar.
Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Helga Jóhanna Oddsdóttir, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Margrét A. Sanders, Sverrir Bergmann Magnússon og Guðbergur Reynisson.
Margrét A. Sanders (D) tók til máls og gerði grein fyrir atkvæði bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks.
Fimmta mál fundargerðarinnar Hljómahöll - geymsluhúsnæði (2024110108) samþykkt 11-0.
Sjötta mál fundargerðarinnar Selás 18 (2024090339) samþykkt 11-0 án umræðu.
Sjöunda mál fundargerðarinnar Heiðarsel - færanlegar kennslustofur við leikskóla (2024100200) samþykkt 11-0 án umræðu.
Áttunda mál fundargerðarinnar Bergvegur 14 (2024120238) samþykkt 11-0 án umræðu.
Níunda mál fundargerðarinnar Aðkomuvegur að eldisgarði á Reykjanesi (2021090022) samþykkt 11-0 án umræðu.
Forseti gaf orðið laust. Til máls tók Guðbergur Reynisson.
Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 354. fundar umhverfis- og skipulagsráðs 10. janúar 2025
3. Fundargerð menntaráðs 10. janúar 2025 (2025010008)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Sverrir Bergmann Magnússon.
Til máls tók Margrét A. Sanders (D) og bar fram eftirfarandi bókun:
4.mál fundargerðarinnar Útfærsla á nýju fyrirkomulagi í leikskólum (2024030084)
„Þegar ákveðið var að fara í tilraunaverkefni í leikskólum Reykjanesbæjar varðandi skráningu barna í leikskólavistun í dymbilviku (síðustu viku fyrir páska) og vetrarfríi á haust-og vorönn lagði Sjálfstæðisflokkurinn áherslu á að sveigjanleiki verði í skráningu barna.
Í bréfi frá sviðsstjóra menntasviðs til foreldra segir eftirfarandi: „Ef foreldrar skrá ekki vistun barns innan auglýsts tíma er litið svo á að það sé í fríi á umræddu tímabili og þá greiða foreldrar ekki fyrir þessa daga. Opnað verður fyrir skráningu á þessum dögum með mánaðar fyrirvara og verður hún opin í viku. Athugið að skráningin er bindandi“.
Sjálfstæðisflokkurinn veit að ákveðnir starfshópar fá vinnuáætlun sína með stuttum fyrirvara, eða búa við það að breytingar eru gerðar á vinnuáætlun eftir að hún er gefin út. Því þarf að benda foreldrum á möguleika á sveigjanleika ef svo ber undir. Einnig þarf að kynna þessa breytingu miklu betur s.s. að starfsfólk fylgir börnum í aðra leikskóla og að þetta feli ekki meiri kostnað fyrir foreldra í för með sér.
Sjálfstæðisflokkurinn óskar eftir því að bæjarstjóri vinni áfram í málinu í samvinnu við sviðsstjóra menntasviðs og leikskólafulltrúa.
Við höfum þegar bent á mikilvægi þess að viðhorf foreldra /forráðamanna og starfsfólks verði kannað og mælt í lok þessa tilraunaverkefnis og treystum því að svo verði.“
Margrét Sanders, Guðbergur Reynisson og Helga Jóhanna Oddsdóttir bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokki.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 381. fundar menntaráðs 10. janúar 2025
4. Fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs 14. janúar 2025 (2025010005)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Valgerður Björk Pálsdóttir, Guðbergur Reynisson, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Margrét A. Sanders og Bjarni Páll Tryggvason.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 190. fundar íþrótta- og tómstundaráðs 14. janúar 2025
5. Fundargerð lýðheilsuráðs 14. janúar 2025 (2025010006)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Sigurrós Antonsdóttir og Valgerður Björk Pálsdóttir.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 54. fundar lýðheilsuráðs 14. janúar 2025
6. Fundargerð velferðarráðs 15. janúar 2025 (2025010012)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Sigurrós Antonsdóttir og Margrét A. Sanders.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 439. fundar velferðarráðs 15. janúar 2025
---
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:45.