Framkvæmdir við Flugvelli í Reykjanesbæ. Ljósmynd: Víkurfréttir
Kjartan Már Kjartansson tók til máls á bæjarstjórnarfundi í gær í afgreiðslum á fundargerðum bæjarráðs til þess að fara yfir málin varðandi framkvæmdir við Flugvelli og skýrsluna Staðardagskrá 21 í Reykjanesbæ, en Kjartan Már var formaður stýrihóps um gerð skýrslunnar.
„Eins og bæjarfulltrúar eflaust vita hefur talsverð umræða farið fram síðustu daga og vikur, bæði í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum, um svæðið fyrir ofan Iðavelli sem fengið hefur nafnið Flugvellir. Ástæðan er sú að þegar uppgröftur og gatnagerð hófst á svæðinu koma ýmislegt járnarusl og annað drasl í ljós en einnig grófu menn niður á tjörutunnur sem fór að leka úr. Við það stöðvaði Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja framkvæmdir og ákvað að rannsaka svæðið nánar. Ég ætla nú, með leyfi forseta, að fara aðeins yfir þetta mál eins og það birtist mér og upplýsa bæjarfulltrúa og íbúa um stöðu málsins eftir bestu getu um leið.
Áður en bandaríski herinn settist endanlega að í herstöðinni á Keflavíkurflugvelli var hér til staðar bandarískt setulið. Á vegum þessara aðila voru reistir hér braggar og önnur mannvirki úr járni og stáli og þegar þeir höfðu lokið hlutverki sínu voru þeir rifnir niður og að einhverju leyti komið fyrir á þessu svæði. Smátt og smátt safnaðist á þessu svæði alls konar járnarusl og drasl auk þess sem þarna risu svo olíutankar af ýmsum stærðum. Á einhverjum tímapunkti kom herinn þarna fyrir talsverðu magni af tunnum sem innihéldu tjöru og sagan segir að bæjarbúar hafi einnig lagt sitt af mörkum af drasli og úrgangi á þetta svæði s.s. járnarusl, timbur, plast, bílhræ o.fl.
Eftir því sem tíminn leið færðist byggðin ofar í Keflavík og nær flugvellinum. Þetta svæði var lengst af innan öryggissvæðis flugvallarins og á sínum tíma þótti ólíklegt að þarna yrði nokkurn tíma byggt. Það átti hins vegar eftir að breytast og þegar gatnagerð við Iðavelli hófst uppúr 1970 var búið að minnka öryggissvæði flugvallarins þannig að heimilt var að nýta þetta svæði ef menn vildu. Því var ákveðið að þekja svæðið með 4-5 metra lagi af jarðvegi og urða það járnarusl og drasl sem þarna var. Síðar var það tyrft að hluta og þar komið fyrir knattspyrnuæfingasvæði sem var þó víkjandi.
Árið 1992 gerðu bæjaryfirvöld í Keflavík svo samning við Utanríkisráðuneytið um leigu á landinu og í því samkomulagi tók sveitarfélagið ábyrgð á að hreinsa svæðið ef ákveðið yrði að fara í framkvæmdir og í ljós kæmi að fjarlægja þyrfti áðurnefnt járnarusl og/eða olíumengaða jarðveg. Í því samkomulagi er ekkert talað um tjöru eða önnur mögulega meira mengandi efni.
Staðardagskrá 21
Þegar vinna við gerð Staðardagskrár 21 stóð sem hæst [árið 1999] ræddi stýrihópurinn, sem í voru auk undirritaðs bæjarfulltrúarnir Björk Guðjónsdóttir og Ólafur Thordersen, við ýmsa aðila bæði fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga. Engar frumrannsóknir eða kannanir voru gerðar í tengslum við þessa vinnu, einungis stuðst við vitneskju og sögur sem mönnum voru þegar kunnar.
Í einu slíku samtali, sem ég man því miður ekki við hvern var, kom fram að á þessu svæði væru þúsundir tjörutunna grafnar í jörð. Viðkomandi gat því miður ekki staðsett þær nákvæmlega en var þess fullviss að þær væru þarna. Það staðfestu fleiri bæjarbúar sem mundu eftir fuglum og öðrum dýrum sem áttu það til að festast í tjörunni. Þetta var sett í skýrsluna á bls. 15 og orðað þannig; „við hlið íþróttasvæðis á Iðavöllum eru grafnar mörg þúsund tunnur af tjöru.“ Reyndar urðu svo einhverjir til þess að draga úr þessu eftir að skýrslan kom út og sögðu þetta ekki hafa verið svo mikið magn. Nær væri að tala um einhverja tugi, í mesta lagi hundruð tunna en aldrei nokkur þúsund.
Skýrsla Stýrihóps Staðardagskrár 21 hafði enga formlega stöðu í stjórnsýslunni og var ekki dreift eða send út til umsagnar eða kynningar heldur einungis kynnt í bæjarráði og bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Einhverjir fjölmiðlar, m.a. Morgunblaðið, fjölluðu um hana og vitnuðu í hana. Eftir sveitarstjórnarkosningar árið 2002 var stýrihópurinn svo lagður niður og verkefnið Staðardagskrá 21 fært undir bæjarráð. Mér er því miður ekki kunnugt um hvort ef þá eitthvað var gert meira í málinu eftir þá breytingu.
Engar athugasemdir bárust vegna endurskoðað skipulags
Eftir sveitarstjórnarkosningarnar 2006 hófst vinna við endurskoðun Aðalskipulags Reykjanesbæjar og stóð allt kjörtímabilið þar til það var afgreitt árið 2010. Á meðal þeirra nýjunga sem komu til sögunnar var svæði undir flugtengda starfsemi á umræddu svæði. Engar athugasemdir bárust við þennan hluta aðalskipulagsins, hvorki frá íbúum, Heilbrigðiseftirliti, ríkinu ( Kadeco) eða öðrum. Engar ábendingar eða athugasemdir komu heldur frá öðrum aðilum. Skipulagsstofnun samþykkti því nýja aðalskipulagið án þess að nokkur úttekt eða rannsókn hefði farið fram á svæðinu. Því var mönnum ekkert að vanbúnaði að hefja vinnu við gerð deiliskipulags, byggt á hinu nýja aðalskipulagi, og var þá strax gert ráð fyrir starfsemi sem tengdist flugi eða ferðaþjónustu s.s. fyrir bílaleigur með tilheyrandi þjónustu. Ekki kom til lóðaúthlutana á þessum forsendum og lítil eftirspurn reyndist þá eftir lóðum undir slíka starfsemi. Árið 2015 fundum við hins vegar fyrir vaxandi áhuga og þörf frá ýmsum aðilum fyrir lóðir undir margháttaða starfsemi tengda alþjóðafluginu og var ákveðið að deiliskipuleggja svæðið uppá nýtt, fyrst og fremst með bílaleigur í huga, sem þyrftu að geta byggt rúmgóðar þjónustubyggingar en einnig að hafa næg bílastæði undir hundruð eða þúsundir bíla. Það er það skipulag sem nú er í gildi og úthlutaðar lóðir taka mið af.
Engin alvarleg mengun í jarðveginum
Þegar gatnagerð hófst nú í vor komu menn fljótlega niður á járnarusl ýmis konar og síðan áðurnefndar tjörutunnur. Hvorki starfsmenn USK né Heilbrigðiseftirlitið vissu af þeim eða höfðu lesið hina 17 ára gömlu skýrslu Stýrihóps Staðardagskrár 21. Undirritaður, sem tók ekki beinan þátt í gerð deiliskipulagsins mundi því miður ekki sérstaklega eftir þessari setningu í skýrslunni enda fjölmargt áhugavert í henni sem fróðlegt hefur verið að rifja upp síðustu dag. Það hefði svo sem heldur engu breytt því það stóð alltaf til að nýta þetta svæði undir flugtengda starfsemi og járnaruslið og tjaran verður fjarlægð. Rannsóknir sem gerðar voru af Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja og sendar til rannsóknar hjá Háskóla Íslands staðfesta einnig að á svæðinu sé hvorki um alvarlega mengun að ræða s.s. þungmálma né þrávirk efni.
Starfsmenn USK hafa verið í góðu sambandi við þá lóðarhafa sem þegar hafa tryggt sér lóðir við Flugvelli. Ljóst er að einhver seinkun verður á gatnagerðinni vegna þessa en vonandi ekki nema nokkrar vikur eða mánuðir.“
Hér má nálgast upplýsingar um skýrsluna Staðardagskrá 21 í Reykjanesbæ og skýrsluna sjálfa.