Ljósanótt aflýst
13.08.2020
Fréttir
Menningar- og atvinnuráð lagði fram til bókunar á fundi sínum þann 12. ágúst síðastliðinn að Ljósanótt yrði aflýst í ár í ljósi þess óvissuástands sem ríkir vegna Covid-19. Yfirskrift Ljósanætur í ár var „Ljósanótt í höndum bæjarbúa“ þar sem til stóð að veita íbúum styrki til að standa fyrir smærri viðburðum víðs vegar um sveitarfélagið. Á fjórða tug umsókna barst og því ljóst að samstaða bæjarbúa er mikil. Menningar- og atvinnuráð telur þó nauðsynlegt að sveitarfélagið gangi á undan með góðu fordæmi og taki ábyrga afstöðu í ljósi stöðunnar. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar tekur fundargerð Menningar- og atvinnuráðs til umræðu og afgreiðslu á fundi sínum þann 18. ágúst næstkomandi.