Pólsk menningarhátíð verður haldin í Reykjanesbæ dagana 10. til 13. nóvember nk. Hátíðinni í ár er verkefnastýrt af Sylwiu Zajkowsku ásamt föngulegu teymi sjálfboðaliða. Fjölbreytt dagskrá verður í boði þar sem fjölbreytileikanum verður fagnað og innsýn gefst í pólska menningu með skemmtilegum hætti.
Hátíðin verður sett í Bókasafni Reykjanesbæjar laugardaginn kl. 13:00. Við það tilefni mun pólska sendiráðið gefa Reykjanesbæ veglega bókagjöf og flutt verða atriði af börnum í pólska móðurmálsskólanum.
Helstu viðburðir hátíðarinnar verða í Bókasafni Reykjanesbæjar, í Fjörheimum og gamla SBK húsinu í Grófinni 2. Fjörheimar hafa skipulagt pólska menningarviku og bjóða upp á skemmtilega og fjölbreytta dagskrá.
Í SBK húsinu verður listasýning alla dagana og á laugardeginum verður líflegur markaður þar sem hægt verður að kynna sér fjölbreyttar vörur en einnig verður pólskri matargerð gert hátt undir höfði sem gestum býðst að smakka.
Aðrir viðburðir sem vert er að nefna er núvitundargönguferð um Njarðvíkurskóga með pólskri og íslenskri leiðsögn um jógastöðvar sem leikskólinn Gimli hefur komið fyrir á svæðinu. Þar hefur Bókasafn Reykjanesbæjar komið fyrir pólskum ljóðum á íslensku og pólsku sem og við heita potta í sundlaugum Reykjanesbæjar.
Á sunnudeginum verður boðið upp á leiksýninguna Tíst, tíst í Duus Safnahúsum fyrir yngri kynslóðina. Sýningin er sýnd á þremur tungumálum, íslensku, ensku og pólsku. Í SBK húsinu verður boðið upp á vinnustofur fyrir börn og fullorðna ásamt candyflossi og snyrtistofu fyrir börn þar sem hægt verður að fá andlitsmálningu og hárgreiðslu svo eitthvað sé nefnt.
Við hvetjum bæjarbúa til að fjölmenna á pólska menningarhátíð en nánari dagskrá má finna á íslensku, ensku og pólsku inni á Visit Reykjanesbær