Minningabókin, listahátíð, Skessuskokk og vígsla vatnsrennibrautar
Undirbúningur fyrir Barna- og ungmennahátíð er kominn vel af stað en hún stendur frá 6.-16.maí n.k. Á því tímabili verður fókusinn settur á börn og fjölskyldur með það að markmiði að þær geti skemmt sér saman og notið alls þess góða sem bærinn hefur upp á að bjóða fyrir þann hóp.
Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi Reykjanesbæjar segir að hugmyndin með hátíðinni sé sú að skapa vettvang eða umgjörð fyrir sem flesta svo sem stofnanir Reykjanesbæjar, íþrótta-, tómstunda- og menningarfélög og fyrirtæki til að bjóða upp á eitthvað skemmtilegt og skapandi með og fyrir börn og fjölskyldur. Er þá átt við að þessir aðilar sameinist um að bjóða upp á eitthvað spennandi utan sinnar hefðbundnu starfsemi, á fyrir fram ákveðnu tímabili og stöðum, sem er einmitt það sem hátíðir gera. Í ár líkt og í fyrra hefur heimsfaraldurinn sett mark sitt á undirbúninginn og fyrirhugað skipulag og er unnið að nýjum útfærslum til að mæta þeim takmörkunum sem nýlega skullu á. Guðlaug hvetur samt alla fyrrnefnda aðila til að hugsa um hvort og hvernig þeirra starfsemi geti lagt sitt af mörkum inn í þessa hátíð og segir það draum sinn að hátíðin komi til með að verða regnhlíf utan um ýmis konar sjálfsprottin verkefni sem vilji tengja sig við hátíðina börnum og fjölskyldum til heilla.
Listahátíð barna í Duus Safnahúsum
Eitt af þeim verkefnum sem hefur verið hryggjarstykkið í hátíðinni á liðnum árum er Listahátíð barna þar sem nemendur í öllum leik- og grunnskólum bæjarins auk listnámsbrautar Fjölbrautaskóla Suðurnesja leggja undir sig öll Duus Safnahúsin með frábærum listsýningum. Sá undirbúningur er á lokametrunum og verða sýningarnar opnaðar 6.maí og standa til 24.maí. Til að undirbúa þetta verkefni var t.d. öllum leikskólum bæjarins boðin þátttaka í vinnustofum með myndlistarmanni í febrúar og mars sem tókust einstaklega vel.
Hæfileikahátíð grunnskólanna
Hæfileikahátíð grunnskólanna er hluti af listahátíðinni og er alveg frábært verkefni sem fram fer í Stapa í Hljómahöll en á þeirri hátíð hafa úrvalsatriði frá árshátíðum grunnskólanna verið sýnd fyrir troðfullu húsi. Að þessu sinni eru uppi áform um að streyma hátíðinni beint í alla grunnskólana og víðar til að virða fjöldatakmarkanir sem um leið opnar tækifæri fyrir almenning að horfa á okkar frábæra unga fólk.
Minningum safnað í minningabókina
Sérstakri minningabók verður dreift til allra leik- og grunnskólabarna og er henni ætlað að hvetja fjölskyldur til að fara saman á stjá um bæinn og skapa góðar minningar. Í henni verða ýmis skemmtileg verkefni fyrir fjölskyldur að leysa á því tímabili sem hátíðin stendur. Þegar ákveðinn fjöldi þrauta hefur verið leystur verður hægt að skila inn minningabókinni í sérstakan pott sem dregið verður úr og þá eiga þátttakendur möguleika á að vinna til skemmtilegra verðlauna.
Fjörheimar og unga fólkið
Unnið hefur verið að því að útvíkka fókus hátíðarinnar þannig að hann beinist ekki eingöngu að yngri börnum heldur einnig ungmennum og þar koma Fjörheimar sterkir til sögunnar. Þar er m.a. verið að vinna að sjónvarpsfréttagerð í samstarfi við sjónvarp Víkurfrétta, útvarpsviku auk fleiri skemmtilegra viðburða sem aðstandendur ungmenna eru hvattir til að fylgjast með.
Skessuskokk, vígsla vatnsrennibrautar og netviðburðir
Mörg fleiri verkefni eru í undirbúningi svo sem eins og hlaup í öllum hverfum bæjarins undir heitinu Skessuskokk. Þá er stefnt að því að taka nýju vatnsrennibrautina í Vatnaveröld formlega í notkun ásamt ýmsu fleiru. Einnig eru nokkrir áhugaverðir netviðburðir í undirbúningi. Íbúar eru hvattir til að fylgjast með dagskránni eftir því sem hún tekur á sig mynd á vef- og samfélagsmiðlum Reykjanesbæjar og facebooksíðunni Barna- og ungmennahátíð.
Fyrir fleiri hugmyndir og nánari upplýsingar er hægt að hafa samband við menningarfulltrúa á netfanginu menningarfulltrui@reykjanesbaer.is