Ný gjaldskrá tekur gildi hjá Reykjanesbæ um áramótin. Gjaldskrá 2019 var samþykkt í bæjarráð 29. nóvember og staðfest af bæjarstjórn 4. desember síðastliðinn. Álagningarhlutfall fasteignaskatts af íbúðarhúsnæði (A-flokkur) lækkar úr 0,46 í 0,36 % af fasteignamati. Aðgangseyrir í Rokksafn Íslands og Duus Safnahús lækka á bilinu 25% til 33,3%. Engin hækkun verður á almenningssamgöngum innanbæjar og útsvarsprósenta helst einnig óbreytt, 14,52% skv. aðlögunaráætlun. Lítilsháttar hækkun verður á flestum gjaldaliðum í takt við almennar vísitöluhækkanir.
Flestar hækkanir á þjónustugjöldum eru kringum 3%. Hækkunin á tímagjöldum leikskóla nemur 3% sem og hækkanir á máltíðum. Mánaðargjald, síðdegishressing og tímagjald frístundaheimila hækkar einnig sem nemur 3% og áskrift skólamáltíða hækkar um 3,38%. Þjónustukort í félagsstarf aldraða hækkar um rétt rúm 3% og einnig verða hækkanir á tómstundagjaldi um 3%. Þá hækka viðmiðunartekjur vegna afsláttar á fasteignaskatti til tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega. Árgjald bókasafnskorts hækkar um 2,7% en aðgangseyrir í Rokksafn Íslands lækkar úr kr. 2.000 í kr. 1.500 og Duus Safnahúsa úr kr. 1.500 í kr. 1.000. Þá lækkar gjald menningarkorts, sem gildir í söfnunum þremur, úr kr. 3.500 í kr. 3.000.
Hækkanir hjá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar (TR) eru að jafnaði um 6%. Afslættir til systkina eru óbreyttir. Ástæða hækkana er að kannað var og borin saman skólagjöld þriggja sambærilegra tónlistarskóla (á Akureyri, í Garðabæ og í Hafnarfirði). Skólagjöld þessara skóla eru mun hærri en skólagjöld Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og er meðaltalið hærra sem nemur um 14,67% fyrir hljóðfæranám á grunnstigi en á því námsstigi eru flestir nemendur í tónlistarskólum landsins. Um árabil var miðað við að skólinn væri ekki með lægri skólagjöld en sambærilegir skólar en sem nemur 7 til 8%. Ljóst er að því hefur ekki verið haldið.
Ný þjónustugjöld koma inn í gjaldskrá ársins 2019. Leiðsögn í Duus Safnahúsum á opnunartíma og utan opnunartíma er nýr gjaldskrárliður, einnig ljósritunarkostnaður vegna beiðna um gögn, sem verður kr. 100 á blað.
Með því að smella á þennan tengil má lesa gjaldskrá Reykjanesbæjar 2019 í heild sinni
Með því að smella á þennan tengil má lesa afslátt til tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega af fasteignaskatti 2019
Með því að smella á þennan tengil má lesa gjaldskrá Reykjanesbæjar 2018
Með því að smella á þennan tengil má lesa afslátt til tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega af fasteignaskatti 2018