Bæjarhlið Reykjanesbæjar.
Atvinnuþátttaka hefur aukist, atvinnurekendum fjölgað, laun hafa hækkað og langskólagengnum hefur fjölgað. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri atvinnumálakönnun sem gerð var á tímabilinu október til desember 2017 meðal íbúa á Suðurnesjum.
Atvinnumálakönnunin var framkvæmd af MMR, Markaðs- og miðlarannsóknum fyrir Reykjanesbæ og Vinnumarkaðsráð Suðurnesja. Sambærileg könnun var gerð tvívegis árið 2013, í febrúar og október og í október 2014 en þá einungis meðal íbúa í Reykjanesbæ. Tímabært þótti að meta stöðuna á vinnumarkaði að nýju til að reyna að greina þær breytingar sem hann hefur tekið á þessum þremur árum. Samanburður nær þó einungis til Reykjanesbæjar.
Ánægjulegt er að sjá að menntunarstig jókst í Reykjanesbæ milli kannana. Alls 24% svarenda höfðu lokið háskólanámi í október 2017 en það hlutfall var 21% í október 2013. Á sama tímabili hefur þeim sem lokið hafa verklegu framhaldsnámi fjölgað úr 15% í 22%. Hlutfall þeirra sem einungis hafa lokið skyldunámi hefur lækkað úr 40% í október 2013 í 32% í október 2017.
Á könnuninni má einnig sjá að laun hafa hækkað og þeim sem hafa lægstu launin hefur fækkað að sama skapi. Mesta hlutfallsaukningin hefur orðið í launahópnum 600 – 799 þúsund, þá 800 þúsund og yfir. Mesta hlutafallslækkun varð í tekjuhópnum undir 250 þúsund. Miðað er við samanlagðar mánaðartekjur fyrir skatt.
Fleiri vinna 100% starf og í ferðaþjónustu en áður
Mikil breyting hefur orðið á atvinnugreinum þegar spurt er um aðalstarf meðal íbúa í Reykjanesbæ. Alls 17% störfuðu í ferðaþjónustu, samgöngum og við flutninga í febrúar 2013 en nú er fjöldi starfsfólks í þeim greinum 26%. Hæsta hlutfall vinnandi fólks er jafnframt í þeim geira og þar er Keflavíkurflugvöllur með 75% starfsfólks. Aldrei hafa færri starfað við verslun og sölu og nú eða 7%. Hlutfallið var hæst 12% í október 2014. Störfum í menningarstarfsemi, fræðslu og þjálfun hefur einnig fækkað úr 17% í febrúar 2013 í 10% nú.
Hlutfall atvinnurekenda er nú 13% í Reykjanesbæ en var lægst 7% í október 2013. Launþegum hefur einnig fjölgað á tímabilinu febrúar 2013 til október 2017, úr 56% í 67% og atvinnuleitendum fækkað á sama tíma úr 7% í 2%. Flestir vinna í 100% stöðuhlutfalli eða 83% vinna fólks í Reykjanesbæ. Þar er hlutfall karla 94% á móti 67% kvenna.
Um símakönnun var að ræða meðal íbúa 18-67 ára. Unnið var út frá eftirtöldum þáttum: Stöðu á vinnumarkaði, starfshlutfalli í aðalstarfi, atvinnugrein, staðsetningu vinnustaðar, menntun, starfi, launum, kyni og aldri. Svarhlutfall var 63% eða 1030 manns af 1632 manna úrtaki yfir Suðurnes í heild. Í Reykjanesbæ var svarhlutfall jafnt eftir kynjum . Gagnaöflun fór fram á tímabilinu 31. október til 6. desember 2017.
Hér má lesa niðurstöður könnunar MMR í heild.