Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri Umhverfisssviðs, Viðar Ellertsson hjá Ellerti Skúlasyni ehf. og Einar Magnússon hjá Vegagerðinni handsala samninginn.
Í næstu viku hefjast framkvæmdir við undirgöng undir Reykjanesbraut við Hafnarafleggjara en skrifað var undir samning þess efnis á þriðjudag. Mikil umferð gangandi og hjólandi vegfarenda er yfir Reykjanesbraut sem skapar mikla hættu, m.a. fyrir íbúa á Ásbrú sem sækja þjónustukjarnanna á Fitjum. Fyrst verk eru merkingar og vinna við framhjáhlaup en áætluð verklok eru 15. nóvember nk.
Íbúar á Ásbrú hafa á undanförnum mánuðum þrýst á undirgöng undir Reykjanesbraut enda þurfa þeir að sækja mest alla þjónustu í önnur hverfi bæjarins. Undirgöng hafa verið gerð við Grænás sem stórbætti umferðaröryggið, ásamt hringtorgi. Ellert Skúlason ehf. mun sjá um framkvæmd undirganganna við Hafnarafleggjara og er kostnaður Reykjanesbæjar rúmar 20 milljónir. Áætlað er að framkvæmdakostnaður verði um 70 milljónir og greiðir Vegagerðin stærsta hlutann enda um þjóðveg að ræða. Undir samninginn skrifuðu Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri Umhverfissviðs, Viðar Ellertsson frá Ellerti Skúlasyni ehf. og Einar Magnússon frá Vegagerðinni.
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykktu á bæjarstjórnarfundi 16. ágúst sl. ályktun þess efnis að tvöföldun Reykjanesbrautar verði sett á samgönguáætlun hið fyrsta. Bókunin var send til Innanríkisráðherra, Vegagerðarinnar og þingmanna Suðurkjördæmis. Þar er lögð rík áhersla á að farið verði í framkvæmdir á næstunni til að útrýma slysagildrum á Reykjanesbæjar. Undirgöngin eru einn liður í bættu umferðaröryggi, en að sögn Guðlaugs þarf að tengja Hafnarafleggjara við hringtorgið Stekk og setja hringtorg á gatnamótum Reykjanesbrautar og Flugvallarvegar annars vegar og Reykjanesbrautar og Aðalgötu hins vegar. „Hraða þarf þessum framkvæmdum þar til endanleg framkvæmd verður komið á en það er tvöföldun Reykjanesbrautar að Rósaselsvötnum.“
Vinstri beygja er nú bönnuð á Hafnarafleggjara enda þótti sýnt að hún skapaði mikla hættu.