Um 120 fyrirtæki eru eru starfandi við Hafnargötuna í Reykjanesbæ í dag, samkvæmt könnun sem Helgi Hólm gerði og kynnt er í nýjasta tímariti Faxa. Um 50 starfsgreinar eiga sína fulltrúa við Hafnargötuna. Þar starfa um 500 manns að sögn Helga, sem gerði ítarlega talningu. „Þessi niðurstaða gefur því vissulega tilefni til bjartsýni á komandi árum“ skrifar Helgi í inngang umfjöllunarinnar.
Helgi gerði svipaða talningu á fyrirtækjum við Hafnargötuna árið 2004 en þá voru 84 fyrirtæki starfandi þar. Þetta er 43% aukning á 10 árum „Þetta er vissulega ánægjulegt. Fjöldi fyrirtækja hefur sveiflast nokkuð eftir árum, helst áberandi þegar verslunarbil á neðri hæðum eru laus en ánægjulegt að þetta skuli vera raunin“ segir Árni Sigfússon bæjarstjóri. Samkvæmt umfjöllun Faxa risu fyrstu húsin við Hafnargötuna á árunum 1785-1804 en Hafnargatan hlaut fyrst nafn sitt 1908.