Hvað finnst íbúum um lýðheilsu á Suðurnesjum? Nokkrir íbúar Suðurnesja voru beðnir um að koma í samtal um lýðheilsu á Suðurnesjum. Þar kom fram ánægja með þá þróun sem hefur orðið með heilsustíga og útisvæði og virtist vilji til enn frekari framkvæmda í þær áttir.
Nýverið kom út skýrsla út frá viðtalsrannsókn sem unnin var af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands fyrir velferðarsvið Reykjanesbæjar og er rannsóknin framhald af stærra samfélagsgreiningarverkefni fyrir sveitarfélögin á Suðurnesjum. Meginmarkmiðið var að leita eftir leiðum til þess að auka lífsgæði, efla heilsu og draga úr heilsufarslegum áhættuþáttum meðal íbúa á Suðurnesjum, í samræmi við áherslur Heilsueflandi samfélags.
Markmið rannsóknarinnar var að kanna reynslu og viðhorf íbúa til ákveðinna lýðheilsuþátta og kalla eftir tillögum að aðgerðum sem gagnast geta til að bæta og auka vitund um lýðheilsu í sveitarfélögunum Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ, Grindavíkurbæ og Vogum. Kallaðir voru saman fjórir ólíkir rýnihópar, með yngri íbúum og eldri, íbúum Suðurnesja utan Reykjanesbæjar og íbúum af pólskum uppruna. Áhersla var lögð á að skoða eftirfarandi lýðheilsuþætti; hreyfingu, umhverfi og skipulag, mataræði, svefn, andlega heilsu, félagsleg tengsl og virkni.
Helstu niðurstöður sýna að flestir íbúar stunduðu einhvers konar heilsurækt og nýttu nærumhverfi sitt til að ganga og hreyfa sig. Margir voru ánægðir með heilsustígana og útisvæðin og fannst það hvetjandi til aukinnar hreyfingar. Þátttakendur bentu þó á að lífga mætti enn frekar upp á bæinn með trjám og plöntum og voru flestir sammála um að byggja ætti miðbæjarkjarna sem gæti sameinað bæjarbúa.
Þátttakendur virtust vera með nokkuð góða meðvitund um mikilvægi mataræðis þó ávaxtaneysla væri lítil heilt yfir hópana, fiskneysla var meiri meðal eldri en þeirra yngri og orkudrykkjaneysla var mikil hjá yngsta hópnum en engin hjá þeim eldri. Kallað var eftir fríum skólamáltíðum og hærri niðurgreiðslu í tómstundir. Hópurinn sem samanstóð af íbúum af pólskum uppruna hvatti til þess fræðslu um heilsu og heilbrigði á pólsku. Allir þátttakendur voru meðvitaðir um mikilvægi svefns fyrir góða heilsu en elsti hópurinn var ánægðastur með svefninn sinn og áttu gott með að sofa á meðan yngsti hópurinn forgangsraðaði síst svefninum umfram annað heilsutengt.
Góð andleg heilsa, félagsleg tengsl og virkni skipti þátttakendur máli í tengslum við lífsstíl og heilbrigt líferni. Yngsti hópurinn lagði áherslu á geðheilsu og óskaði eftir aukinni sálfræðiþjónustu. Eldra fólkið vildi meiri og betri kynningu á framboði af félagsstarfi og afþreyingu fyrir þeirra aldurshóp. Íbúar af pólskum uppruna óskuðu eftir því að skapaður yrði vettvangur til þess að hittast og kynnast til að auðvelda aðild að samfélaginu.
Þátttakendur komu fram með ýmsar gagnlegar ábendingar um hvernig megi efla lýðheilsu á Suðurnesjum. Þrátt fyrir að ekki sé hægt að yfirfæra niðurstöðurnar yfir á alla íbúa Suðurnesja veita þær engu að síður vísbendingar um heilsu ákveðinna hópa og gefa hugmyndir um hvernig megi auka lýðheilsu íbúa. Reykjanesbær hefur farið yfir þær ábendingar sem komu fram og borið saman við þær framkvæmdir sem þegar hefur verið ráðist í og framundan eru og sett aðrar góðar tillögur í réttan farveg innan sveitarfélagsins.
Reykjanesbær þakkar þátttakendum kærlega fyrir þeirra framlag í rannsókninni.
Við hvetjum íbúa til þess að kynna sér niðurstöður rannsóknarinnar.
Hér eru niðurstöðurnar:
Ásdís Ragna Einarsdóttir, Verkefnastjóri lýðheilsumála hjá Reykjanesbæ
Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, Verkefnastjóri fjölmenningar hjá Reykjanesbæ